Erlent

Virkum smitum fækkar á Ítalíu í fyrsta sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Sýni rannsökuð á Ítalíu.
Sýni rannsökuð á Ítalíu. EPA/Filippo Venezia

Virkum smitum fækkaði á Ítalíu í dag og er það í fyrsta sinn frá því að faraldur nýju kórónuveirunnar náði þar fyrst fótfestu. Samkvæmt opinberum tölum dagsins eru 108.237 með Covid-19, sjúkdóminn sem veiran veldur, á Ítalíu og fækkaði þeim um tuttugu á milli daga. Í gær hafði virkum smitum fjölgað um 486 á milli daga, samkvæmt ítölsku fréttaveitunni ANSA.

Virk smit ná ekki yfir þá sem hafa náð sér af sjúkdómnum eða dáið. Heilt yfir, fjölgaði smitum um 1,2 prósent. Sú tala hefur aldrei verið lægri.

Sömuleiðis hefur fólki á gjörgæslu fækkað. Þar var fækkunin 62 á milli daga. Sú þróun er þó ekki ný.

24.114 manns hafa dáið vegna kórónuveirunnar á Ítalíu. Þeim fjölgaði um 454 á milli daga en degi áður voru þeir 433. Þær tölur ná þó eingöngu yfir þá sem hafa dáið á sjúkrahúsum. Ekki fólk sem dáið hefur á heimilum sínum eða dvalarheimilum.

Þá náðu 1.822 sér af veirunni á milli daga og alls hafa 48.877 náð sér.

í frétt BBC segir að yfirvöld Ítalíu hafi tekið þessum fregnum vel. Ljóst sé að landið sé á réttri stefnu en enn sé langt í land.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×