Innlent

Karl Wernersson hóf afplánun í síðasta mánuði

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Karl Wernersson, fyrrverandi stjórnarformaður Milestone, er byrjaður að afplána dóm sinn en hann mætti á Kvíabryggju í síðasta mánuði.

Karl, ásamt bróður hans Steingrími Wernerssyni, var dæmdur til fangelsisvistar í Hæstarétti í apríl síðastliðnum. Karl fékk þriggja og hálfs árs dóm en Steingrímur tveggja ára dóm.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Steingrímur ekki hafið afplánun. Í dag afplána níu manns dóma vegna efnahagsbrota í kjölfar rannsókna sérstaks saksóknara.

Málið sem kennt hefur verið við Milestone snerist um 4,8 milljarða króna greiðslur sem runnu út úr félaginu Milestone, sem Karl og Steingrímur stýrðu, til systur þeirra, Ingunnar Wernersdóttur, á árunum 2006 og 2007.

Var það mat ákæruvaldsins að um umboðssvik hafi verið að ræða. Guðmundur Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Milestone, hlaut þriggja ára fangelsisdóm. Í málinu voru einnig tveir endurskoðendur dæmdir í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×