Enski boltinn

Carragher setti á sig sýndargleraugu og fór í spor aðstoðardómarans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Carragher að störfum að skoða mark Cesar Azpilicueta.
Jamie Carragher að störfum að skoða mark Cesar Azpilicueta. Samsett/Getty og skjámynd frá Sky Sport
Það var erfiðara en margur heldur að dæma rangstöðu á Chelsea þegar Cesar Azpilicueta jafnaði á móti Cardiff þrátt fyrir að Cesar hafi verið kolrangstæður. Þessu komst Jamie Carragher að í sjónvarpssal Sky Sports.

Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff City fengu á sig kolólögleg jöfnunarmark í leiknum á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um helgina og enduðu síðan leikinn á því að fá á sig sigurmark í uppbótartíma.

Jöfnunarmark Cesar Azpilicueta var greinileg rangstaða og átti aldrei að standa. Það kom Chelsea inn í leikinn og Cardiff menn gengu að endanum stigalausir af velli.  Grátleg niðurstaða fyrir lið sem þurfti svo mikið á þessum stigum að halda í fallbaráttunni.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, var alveg brjálaður eftir leikinn, starði á dómarana í heillangan tíma út á velli og talaði síðan um það eftir leikinn að verstu knattspyrnudómararnir væru á Englandi.

Þetta voru mistök hjá aðstoðardómaranum. Það er alveg klárt. Jamie Carragher ákvað að reyna að setja sig í hans spor í uppgjörsþætti Sky Sports og notaði til þess sýndargleraugu. Úr varð hið besta sjónvarp eins og sjá má hér fyrir neðan.





Jamie Carragher talaði máli aðstoðardómarans. „Ég hef mikla samúð með dómurunum og er tilbúinn að ganga svo langt að segja að það hafi verið nánast ómögulegt fyrir aðstoðardómaranna að dæma rangstöðu þarna,“ sagði Jamie Carragher.

Hann hafði þá fengið að að sjá atvikið umdeilda með „augum“ aðstoðardómarans. Aðalástæðan fyrir því að Jamie Carragher varði þessa ákvörðun er að hann sá ekkert fyrir Chelsea manninum Willian sem skyggði á útsýndi aðstoðardómarans.

Neil Warnock verður örugglega ekki ánægður með Jamie Carragher eftir þessa tilraun hans en þetta setur samt svona dóm í samhengi. Það er ýmislegt sem getur komið í veg fyrir að dómararnir sjái það sem gerist. Að þessu sinni var það Chelsea-maðurinn William og kannski kom myndarleg hárgreiðsla Brasilíumannsins líka sér vel fyrir Chelsea liðið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×