Enski boltinn

Charlton búið að samþykkja tilboð Burnley í Jóhann Berg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í fótbolta, er á leið til Burnley í ensku úrvalsdeildinni en samkvæmt heimildum Sky Sports er Charlton búið að taka 2,5 milljóna punda tilboði í leikmanninn.

Jóhann Berg var langbesti leikmaður Charlton á síðustu leiktíð þegar það féll úr B-deildinni en hann var svo í byrjunarliði íslenska landsliðsins í öllum fimm leikjum þess á Evrópumótinu í Frakklandi.

Þessi 25 ára gamli kantmaður skoraði 16 mörk í 81 deildarleik með Charlton á tveimur tímabilum en þar á undan spilaði hann í fimm ár með AZ Alkmaar í Hollandi.

Burnley vann ensku B-deildina á síðustu leiktíð og spilar á meðal þeirra bestu á ný á næsta keppnistímabili sem hefst í ágúst.

Fyrsti leikur Jóhanns í ensku úrvalsdeildinni gæti verið gegn liðsfélaga sínum úr landsliðinu, Gylfa Þór Sigurðssyni, en nýliðarnir mæta Swansea á heimavelli í fyrstu umferð deildarinnar 13. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×