„Þessu miðar hægt en örugglega,“ segir Baldur Ólafsson, björgunarsveitarmaður, en hann fer fyrir björgunaraðgerðum í Sveinsgili. Síðdegis í gær rann franskur ferðamaður sem var á ferð um svæðið niður snjóhengju og út í á sem rennur í gegnum gilið. Maðurinn er enn ófundinn.
Síðan í gær hafa björgunarsveitarmenn unnið að því að bora og saga göt í 25 metra snjóhengju sem er yfir ánni en talið er að maðurinn hafi flotið með ánni. Baldur var á leið á stöðufund þegar Vísir náði af honum tali.
„Það er komið þriðja gatið niður í vatn og það er verið að vinna í að víkka það.“
Kafarar Landhelgisgæslunnar eru á leiðinni á vettvang og verða komnir eftir klukkustund til tvær. Þegar þeir koma þá fara þeir í að meta aðstæður og skoða hvort hægt sé að fara í gegnum götin og kafa í ánni.
Um jökulá er að ræða og aðstæður eru erfiðar vegna snjóhengjunnar en snjórinn er mjög harður og frosinn. Flotdúkka verður send niður ánna í dag en nú um klukkan tvö fóru af stað mannaskipti og skipti á búnaði.
Maðurinn var á ferð ásamt samlanda sínum sem var sendur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í gær til aðhlynningar. Hann mun vera ómeiddur.
Björgunarsveitir unnu í nótt og voru á þriðja hundrað björgunarsveitarmenn á staðnum þegar mest lét.
