Fótbolti

Rashford: Þetta er ekki raunverulegt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Líf hins 18 ára gamla framherja Man. Utd, Marcus Rashford, hefur breyst ansi mikið á síðustu fimm mánuðum.

Fyrir fimm mánuðum síðan var hann hugsanlega á leiðinni til Crewe á lánssamningi. Nú er hann að fara að spila fyrir enska landsliðið á EM.

Hann byrjaði ferilinn hjá Man. Utd með því að skora tvö mörk gegn FC Midtjylland í Evrópudeildinni og fylgdi því eftir með tveim mörkum gegn Arsenal í fyrsta deildarleiknum sínum.

Er tímabilið var búið hafði Rashford skorað 8 mörk í 18 leikjum og var valinn í landsliðið. Það tók hann síðan 138 sekúndur að skora sitt fyrsta landsliðsmark. Ótrúlegt.

„Þetta virðist ekki vera raunverulegt er ég horfi fimm mánuði til baka. Um jólin var ég að reyna að komast í U-21 árs liðið hjá United en fékk óvænt tækifæri í aðalliðinu,“ sagði hinn ungi Rashford.

„Ég var ekki að hugsa mikið um enska landsliðið en að vera kominn hingað er ótrúlegt. Það er geggjuð tilfinning að geta hjálpað Englandi á stórmoti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×