Fótbolti

Hemmi Gunn og Freyr Bjarna eiga eitt sameiginlegt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Bjarnason.
Freyr Bjarnason. Mynd/Daníel
Íslensk lið hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum við lið frá Portúgal í Evrópukeppnum.

Íslensk lið hafa fjórum sinnum áður dregist á móti liðum frá Portúgal. Frægustu leikirnir eru leikir Vals og Benfica í Evrópukeppni meistaraliða fyrir 49 árum. Alls 18.194 manns sáu Val og Benfica gera markalaust jafntefli á Laugardalsvelli 18. september 1968. Það áhorfendamet stóð allt til ársins 2004 þegar rúmlega 20.000 manns sáu Ísland vinna Ítalíu.

Benfica var með eitt sterkasta lið Evrópu á þessum tíma og Eusébio og félagar sýndu styrk sinn í seinni leiknum sem þeir unnu 8-1. Hermann Gunnarsson gerði mark Vals.

Haustið 1986 mætti ÍA Sporting frá Lissabon í Evrópukeppni félagsliða. Það var leikur kattarins að músinni. Sporting vann samanlagt 15-0.

Boavista sló Val út í Evrópukeppni bikarhafa 1992. Liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum á Íslandi en Boavista vann þann seinni með þremur mörkum gegn engu.

FH mætti Nacional fyrir sex árum. Fyrri leikurinn fór fram í Kaplakrika og endaði með 1-1 jafntefli. Freyr Bjarnason skoraði mark FH. Nacional vann svo seinni leikinn ytra 2-0 og fór því áfram, 3-1 samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×