Yfirvöld í Danmörku hafa handtekið og ákært þrjá íranska ríkisborgara fyrir njósnir í þágu Sádí-Arabíu. Fjórði maðurinn hefur verið ákærður fyrir þátt sinn í að skipuleggja árás innan danskra landamæra, árás sem átti að beinast gegn hóps aðskilnaðarsinna sem mennirnir þrír fyrrnefndu eru meðlimir í.
Frá þessu var greint á blaðamannafundi dönsku öryggislögreglunnar PET. Mennirnir þrír sem eru í haldi í Danmörku eru sagðir vera meðlimir ASMLA-hópsins, hreyfingar sem berst fyrir sjálfstæði Ahwaz-héraðs í suðvesturhluta Írans.
Er þeim gefið að sök að hafa njósnað um einstaklinga í Danmörku í þágu yfirvalda í Sádí-Arabíu á árunum 2012 til 2018.
Fjórði maðurinn er ekki í haldi lögreglu í Danmörku en hann er sagður vera meðlimur írönsku leyniþjónustunnar. Er honum gefið að sök að hafa átt þátt í að skipuleggja fyrirhugaða árás írönsku leyniþjónustunnar gegn einstaklingum í Danmörku árið 2018.
Árásin var aldrei framin en norskur ríkisborgari af írönskum uppruna var handtekinn í Svíþjóð í október 2018, grunaður um að hafa aðstoðað írönsku leyniþjónustuna við að skipuleggja árás á danskri jörð.
Er leyniþjónustumanninum sem nú hefur verið ákærður gefið að sök að hafa verið í sambandi við norska ríkisborgarannan sem átti að fremja árásina, sem að sögn danskra fjölmiðla átti að beinast gegn leiðtoga ASMLA-hópsins, samtakanna sem hinir mennirnir þrír eru meðlimir í.
Finn Borch Andersen, yfirmaður PET, segir málið afar flókið en það teygir anga sína til Hollands, sem handtók nokkra í tengslum við málið í dag.
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur hefur kallað utanríkismálanefnd danska þingsins á sérstakan fund vegna málsins, en hann segir málið algjörlega óásættanlegt.
Fjórir ákærðir fyrir njósnir í Danmörku í „afar flóknu“ máli

Tengdar fréttir

Íranir hugðu á árás á danskri jörð
Lögregla í Danmörku telur að útsendarar írönsku leyniþjónustunnar hafi haft í hyggju að framkvæma árás gegn fólki í Danmörku.

Refsiaðgerðir gegn Íran vegna áforma um launmorð í Evrópu
Dönsk og frönsk stjórnvöld hafa sakað Írani um að skipuleggja launmorð þar.

Standa með Dönum í deilunni vegna tilræðis írönsku leyniþjónustunnar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að Norðurlöndin sýni dönskum yfirvöldum fulla samstöðu vegna tilræðis írönsku leyniþjónustunnar á danskri jörð og greint var frá í gær.