Valur mætir Halden frá Noregi í 8-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu í handbolta. Dregið var í 8-liða úrslitin í dag.
Valur er búinn að slá Bregenz frá Austurríki og Beykoz frá Tyrklandi úr leik, þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað á heimavelli í Áskorendabikarnum á þessu tímabili.
Fyrri leikur Vals og Halden fer fram 21. eða 22. mars og sá síðari 28. eða 29. mars.
Halden hefur slegið Kauno Azuolas-TPU frá Litháen og Neva frá Rússlandi úr leik.
Valsmenn komust í undanúrslit Áskorendabikarsins fyrir þremur árum. Þar töpuðu þeir á umdeildan hátt fyrir Potaissa Turda frá Rúmeníu.
Potaissa Turda var í pottinum þegar dregið var í 8-liða úrslit í dag. Rúmenarnir mæta AEK Aþenu frá Grikklandi. Sigurvegarinn úr þeirri rimmu mætir sigurvegaranum úr einvígi Vals og Halden í undanúrslitum Áskorendabikarsins.
Men's Challenge Cup quarter-final draw:
— EHF European Cup (@ehf_ec) February 18, 2020
QF1 - HC Victor vs @CSMBucharest
QF2 - HCB Karvina vs HC Dukla Praha
QF3 - @aek_official vs @AHCPotaissa
QF4 - Halden Topphandball vs @valurhandboltipic.twitter.com/FEyD8nSpx8
Halden endaði í 9. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og komst ekki í úrslitakeppnina. Liðið komst hins vegar í bikarúrslit þar sem það tapaði fyrir Elverum, 30-22.
Eftir 17 umferðir á þessu tímabili er Halden í 8. sæti norsku deildarinnar.
Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Vals, lék með Halden tímabilið 2016-17.