Lífið

Undrakremið sem er að gera allt vitlaust

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Munurinn eftir að kremið var borið á húðina.
Munurinn eftir að kremið var borið á húðina. Vísir
Kremið Instantly Ageless frá Jeunesse, oft kallað undrakremið í daglegu tali, hefur svo sannarlega slegið í gegn. Myndir og myndbönd af konum og mönnum, sem bera kremið á sig og sjá umtalsverðan mun eftir aðeins tvær mínútur, fara eins og eldur í sinu um Facebook. En hvað er þetta undraefni? Íris Pétursdóttir er ein þeirra sem selja kremið.

„Þetta er meira eins og förðunarvara, þar sem kremið er ekki með langtímavirkni. Þú þværð þetta af þér á kvöldin eins og þú gerir með annan farða,“ segir Íris. Efnið kom fyrst á markað í Bandaríkjunum í nóvember og á Evrópumarkað í apríl. „Þeir höfðu ekki undan að framleiða þetta, því það var svo mikil eftirspurn. Þetta er að virka en það eru margir sem trúa því ekki,“ segir hún.

FYRIR OG EFTIR Hér hefur kremið verið borið á augnsvæðið.


Eftir að kremið er borið á húðina virkar það í um 6-8 klukkustundir. Íris segist sjálf bera kremið á yfir farða, en líka megi nota það undir hann sem nokkurs konar grunn. „Ég kalla þetta oft partíkremið. Flestir nota þetta þegar þeir eru að fara eitthvað út.“ Virknin í kreminu kemur fram þegar það þornar á húðinni. „Þetta virkar eins og bótox án nála og maður finnur húðina strekkjast aðeins þegar þetta þornar.“

Íris segist hvorki hafa heyrt um að fólk hafi ekki þolað efnið né hafi orðið vart við langtímavirkni. „Ég hef ekki séð langtímaáhrif af þessu, og get ekki staðfest það.“

Virka efnið í kreminu er argireline (acetyl hexapeptide-3), peptíð sem oft er kallað bótox í krukku. Efnið kemur í veg fyrir að vöðvar geti dregist saman þegar til dæmis er brosað. Til þess að vöðvasamdráttur geti orðið þurfa svokölluð SNARE-prótein að myndast. Þau senda boð til heilans um að hreyfa vöðvann. Það sem argireline gerir er að herma eftir einu af þessum próteinum og þannig veikir það hin, svo ekki verði vöðvasamdráttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×