Fótbolti

Mourinho tilbúinn fyrir Barcelona

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Portúgalinn José Mourinho, þjálfari Inter, er hvergi banginn fyrir undanúrslitaleikina gegn Barcelona í Meistaradeildinni.

Liðin hafa þegar mæst í riðlakeppninni í vetur. Markalaust jafntefli varð á Ítalíu en Barca vann heimaleikinn, 2-0.

Mourinho segir að Barcelona muni mæta öðru og sterkara Inter-liði að þessu sinni.

„Fólk getur bókað það að við spilum allt annan leik núna. Þeir hafa ákveðið forskot með því að eiga seinni leikinn heima en við vitum hvernig á að mæta í svona leiki," sagði Mourinho sem fór alla leið í þessari keppni með Porto árið 2004.

„Við erum búnir að vinna fimm leiki í röð í Meistaradeildinni og erum verðskuldað komnir svona langt. Við getum talað um algjöra breytingu hjá Inter í Meistaradeildinni. Andlega séð er þetta miklu sterkara lið með sjálfstraust og hæfileika.

„Sigurinn í Rússlandi sýnir að Inter er komið á næsta stig. Núna er þetta Meistaradeildar-Inter. Hvað sem gerist gegn Barcelona þá mun Inter mæta með sjálfstraustið í botni í þessa keppni á næsta ári. Ef við vinnum ekki í ár þá mun Inter gera það á næstu árum."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×