Innlent

Sleppt of snemma af spítala eftir sjálfsvígstilraunir

Helga Arnardóttir skrifar

Móðir rúmlega tvítugs pilts sem svipti sig lífi fyrir tæpum tveimur árum segir bráðnauðsynlegt að þeir einstaklingar sem geri tilraun til sjálfsvígs verði lagðir inn á spítala í nokkra daga og hljóti viðeigandi meðferð. Syni hennar var sleppt daginn eftir slíka tilraun en endaði svo líf sitt tveimur mánuðum síðar.

Tíu prósent þeirra sem þarfnast innlagnar á gjörgæslu eftir sjálfsvígstilraun deyja innan þriggja ára þótt flestir þeirra hafi fengið meðferð í geðheilbrigðiskerfinu samkvæmt nýrri rannsókn sem birt var í læknablaðinu.

Þetta segir Ingibjörg Helga Baldursdóttir sláandi en sonur hennar Lárus Stefán Þráinsson stytti sér aldur fyrir tæpum tveimur árum 21 árs vegna þunglyndis. Hún segir að geðheilbrigðiskerfið hefði mátt standa betur að málum Lárusar eftir að hann reyndi fyrst að fyrirfara sér í apríl 2008.

„Ég var það hrædd og ég vildi að hann fengi að vera á spítalanum áfram. Ég hafði ekki þá kunnáttu eða þekkingu til að glíma við hann og hans veikindi. Vissi hvorki hvernig ég átti að taka á þessu né bregðast við," segir Ingibjörg.

Ingibjörg segist alveg hafa verið undir það búin að þurfa að beita Lárus fortölum um að dvelja áfram á spítalanum. "En ég var hins vegar ekki undir það búin að þurfa sannfæra lækninn um að senda hann ekki heim. Það var nú samt raunin ég mátti bara koma og sækja hann á spítalann daginn eftir sjálfsvígstilraunina. Hann var búinn að lofa því að gera þetta ekki aftur og þá mátti hann bara fara. Það skipti engu máli hvort ég teldi að hann þyrfti að vera þarna áfram."

Henni hafi sárnað að heimkoma Lárusar hafi verið byggð á mati eins læknis. Tveimur mánuðum síðar dó Lárus.

Ingbjörg segir brýnt að þeir sem reyni að stytta sér aldur fái viðeigandi meðferð og séu lagðir inn á spítala í nokkra daga á eftir eftir slíka tilraun. Fjölskyldurnar og einstaklingurinn sjálfur séu undir nógu miklu álagi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×