Sport

Draumurinn að spila í úrvalsdeild

Watford samþykkti í vikunni tilboð Reading í landsliðsmanninn Brynjar Björn Gunnarsson og mun hann af öllum líkindum ganga formlega frá samningum í dag eða á morgun. Þetta er fjórða enska félagið sem Brynjar Björn leikur með en hann hefur áður verið á mála hjá Stoke City, Nottingham Forest og vitaskuld Watford þar sem hann, ásamt Heiðari Helgusyni, var með betri mönnum liðsins á síðustu leiktíð. Heiðar Helguson var seldur til Fulham í úrvalsdeildinni og nú Brynjar Björn og þó svo að hann sé enn í 1. deildinni hefur hann ekki gefið úrvalsdeildardrauminn upp á bátinn. "Það er auðvitað draumur minn eins og allra annarra að spila í úrvalsdeildinni. Þar hef ég aldrei fengið að spreyta mig en það væri gaman að fá tækifæri til þess," sagði Brynjar Björn í gær. "Ég verð þrítugur í október næstkomandi og þetta eiga að vera bestu ár mín sem knattspyrnumanns," bætir hann við. Reading er sterkt félag og þó nokkuð stærra en Watford en lið félagsins átti góðan séns á úrvalsdeildarsæti í vetur en lauk keppni í 7. sæti, einu sæti frá því sæti sem veitir þátttökurétt í umspilskeppnini um síðasta lausa sæti úrvalsdeildarinnar. Brynjar Björn segist vissulega hafa verið smeykur við að söðla um í enn eina skiptið en að hlutirnir hafi gengið hratt fyrir sig og hann sé nú spenntur fyrir nýjum ferli hjá nýju félagi. Hann vonast þó til að þurfa ekki að flytja búsóð sína. "Þetta er um klukkutíma akstur frá okkur og ég ætla að sjá til hvernig gengur að keyra þessa leið -- alla vega til að byrja með. Okkur líður vel þar sem við erum og ég var alls ekki að leitast eftir því að skipta um félag. Ég átti enn eitt ár eftir hjá samningi mínum og ef þeir hefðu boðið mér framlengingu á honum hefði ég eflaust tekið því."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×