Lífið

Konungur spjallþáttanna hættur: David Letterman var í 33 ár á toppnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
David Letterman er hættur hjá sjónvarpsstöðinni CBS. Fjölmargar stjörnur mættu í lokaþáttinn í gær.
David Letterman er hættur hjá sjónvarpsstöðinni CBS. Fjölmargar stjörnur mættu í lokaþáttinn í gær. vísir/getty
Spjallþáttastjórnandinn David Letterman er hættur og var lokaþáttur The Late Show sýndur í Bandaríkjunum í gærkvöldi.

Letterman hefur verið á skjánum í rúmlega þrjátíu ár og notið gríðarlegrar vinsældra um allan heim. Þáttur Letterman hét upphaflega Late Night og hóf hann göngu sína árið 1982 á sjónvarpstöðinni NBC.

Hann færði sig síðan yfir á CBS árið 1993 og hefur verið með The Late Show síðan. Jay Leno tók við Letterman á NBC árið 1993 þegar hann færði sig yfir á CBS. Hann hefur því verið þáttastjórnandi spjallþáttar í 33 ár en árið 2013 hafði hann verið með spjallþátt lengur en sjálfur Johnny Carson.

Letterman þykir einn virtasti sjónvarpsmaður í heiminum og var því mikið umtal í kringum lokaþáttinn.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, kvaddi Letterman í gær ásamt Bill Clinton og George Bush og fleiri góðum. Hér að neðan má sjá myndskeið þegar fyrrum forsetar Bandaríkjanna köstuðu kveðju á spjallþáttastjórnandann.

Hann hefur stjórnað 6028 þáttum á sínum ferli og er nú komið að endalokum. Íslendingar hafa komið við sögu hjá Letterman í gegnum tíðina en Johnny Galecki, einn af aðalleikurum í þáttunum The Big Bang Theory, var eitt sinn gestur þáttarins og lét þá Letterman til að mynda hafa eftir sér í þættinum að Íslendingar ættu flesta alkóhólista.

Sjá einnig: David Letterman segir Ísland eiga flesta alkóhólista

Guðmundur Karl Arnþórsson, okkar allra frægasti flugdólgur, kom einnig við sögu í þættinum í janúar árið 2013 og kynnti Letterman þá til sögunnar nýjan dagskrálið. „Við höfum glænýjan lið í þættinum: Við hvað er drukkni farþeginn hjá Icelandair límdur í dag?“.

Sjá einnig: Flugdólgurinn fer víða - Letterman sér spaugilegu hliðarnar

Leikkonan Emma Watson sagði í viðtali við þáttastjórnandann að Ísland væri gullfallegt land en henni þótti undarlegt að borða dýr sem hún var nýbúin að skoða.

Sjá einnig: Fannst undarlegt að borða dýr sem hún var nýbúin að skoða

Stephen Colbert mun taka við þætti Letterman á CBS og óskaði hann honum góðs gengis í gærkvöldi. 

Letterman kvaddi aðdáendur sína í gærkvöldi. Hann er ekki þekktur fyrir það að vera tilfinningaríkur maður en hann átti nokkuð erfitt með kveðjustundina eins og sjá má hér að neðan. 

Hljómsveitin Foo Fighters kom fram í lokaþættinum en nokkrar mjög þekktar sjörnur tóku þátt í lokaþættinum í gær og má þar nefna: Julia Louis-Dreyfus, Jerry Seinfeld, Chris Rock, Jim Carrey,Steve Martin, Tina Fey, Peyton Manning, Bill Murray og fleiri góðir.

Heimfrægir tónlistarmenn, leikarar og þúsundir manna kvöddu þennan merka mann í gær og stendur það enn yfir. Stuðst var við kassamerkið #ThanksDave á Twitter.


Tengdar fréttir

Cosby afboðar sig eftir ásakanir um nauðganir

Búið er að afboða komu Bill Cosby, leikara og grínista, í sjónvarpsþáttinn Late Show með David Letterman á CBS. Talið er að það tengist ásökunum um kynferðislegt ofbeldi og nauðgunum.

Íslendingar í Letterman

Ísland spilaði stórt hlutverk í þætti David Lettermans, Late Show í gær en þar kom John Grant fram ásamt hljómsveit sinni

Óður til Davids Letterman

Óður til Lettermans var að finna í nýjasta þætti The Simpsons, en í fréttinni má sjá klippu úr þættinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×