Sport

Miami - Washington á Sýn í kvöld

Annar leikur Miami Heat og Washington Wizards í undanúrslitum austurdeildarinnar í NBA verður í beinni útsendingu á Sýn í kvöld og hefst útsending klukkan 23:15. Þar ber að líta nokkra af skemmtilegri leikmönnum deildarinnar í dag og maðurinn sem allra augu berast að í dag, Dwayne Wade, verður í eldlínunni. Fróðlegt verður að sjá hvernig lið Washington nær að bregðast við tapinu í fyrsta leik liðanna í Miami, en leikurinn í kvöld verður einnig háður þar í borg. Margir vilja meina að Wizards eigi litla sem enga möguleika í lið Miami, því eins og sást í fyrsta leiknum voru yfirburðir heimamanna gríðarlegir, þrátt fyrir að lykilmenn liðsins væru ekki að eiga sérstakan dag í sóknarleiknum. Möguleikar Washington liggja í því að keyra upp hraðann í einvíginu og freista þess að lokka Miami til að gera slíkt hið sama, því fáum liðum fer betur að leika hraðann sóknarleik en einmitt Washington. Varnarleikur Heat hefur á hinn bóginn verið mjög góður í úrslitakeppninni og ef þeir Shaquille O´Neal og Dwayne Wade verða í stuði í kvöld, er ljóst að Washington á fyrir höndum langt og erfitt kvöld. Ástæða er til að hvetja alla aðdáendur góðs körfubolta til að fylgjast með leiknum í kvöld, en fastlega má búast við glæsitilþrifum frá snillingum eins og þeim Shaquille O´Neal og Dwayne Wade hjá Miami og Gilbert Arenas og Larry Hughes hjá Washington. Sérstaklega hefur verið gaman að fylgjast með hinum kornunga Dwayne Wade í úrsiltakeppninni undanfarið, en þessi frábæri bakvörður er farinn að fá fólk sem saknar Michael Jordan til að taka gleði sína á ný með ótrúlegum leik sínum.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×