Menning

Ný tónlistarhátíð í sumar

Rock 2005 er ný, alþjóðleg tónlistarhátíð sem halda á hér á landi nú í sumar og eins og aðstandendurnir orða það, um ókomna tíð. Þetta árið eigum við von á hljómsveitum á borð við Duran Duran og Foo Fighters.

Kári Sturluson, framkvæmdastjóri BTB sem stendur fyrir hátíðinni, segir að markmiðið með henni sé að koma Íslandi almennilega á tónlistarkortið í Evrópu rétt eins og á Hróarskelduhátíðin er í Danmörku. Rock 2005 hefst fimmtudaginn 30. júní og er svo sannarlega ekki um neinar bílskúrshjómsveitir að ræða. Kári segir að á fyrstu hátíðinni spili Duran Duran, Foo Fighters og Queens of the Stone Age sem hann telji alls ekki slæma byrjun.

Það er óhætt að segja að Kári hafi verið duglegur við að flytja erlendar hljómsveitir hingað til lands á undanförnum árum en meðal þeirra má nefna Coldplay, Rammstein og söngvarann Damien Rice. Kári segir að þó svo stórar og frægar hljómsveitir séu á fyrstu tónlistarhátíðinni sé stefnt á að gera jafnvel ef ekki betur næstu árin og segir hann Íslendinga mega eiga von á metnaðarfullum tónlistarhátíðum næstu árin sem eigi að höfða til allra aldurshópa.

Hann segir enn fremur vonast til að hátíðin vaxi og dafni með tíð og tíma og verði stærri og skemmtilegri í sniðum. Strax á næsta ári verði væntanlega bætt inn nýjum þáttum. Aðstandendur hátíðarinn hafi reyndar ætlað að byrja smærra en á einhvern hátt hafi það þróast þannig að þessar þrjár stórsveitir hafi stokkið um borð um leið, en hann sýti það ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×