Erlent

Stórsigur sjíta-múslima

Flokkabandalag sjíta-múslima vann stórsigur í þingkosningunum í Írak. Það gerðu Kúrdar einnig en súnní-múslimar eru úti í kuldanum. Það gæti valdið miklum vandræðum. Kosningaþátttaka var tæplega sextíu prósent sem út af fyrir sig var stórsigur fyrir þjóðina alla sem nú gekk til frjálsra kosninga í fyrsta skipti í hálfa öld. Flokkabandalag sjíta-múslima fékk 47 prósent atkvæða og vantaði aðeins sjö þingmenn til þess að ná hreinum meirihluta á þinginu. Á því eru 275 sæti. Kúrdar voru númer tvö með 25 prósent atkvæða og í þriðja sæti var flokkur Iyads Allawis sem er bráðabirgða forsætisráðherra landsins. Mikil hrossakaup eru þegar hafin milli flokka sem eru að reyna að tryggja völd sín með því að komast í samsteypustjórn. Fáir súnní-múslimar tóku þátt í kosningunum og þeir fengu aðeins örfáa menn kjörna á þing. Það gæti valdið vandræðum. Súnní-múslimar réðu lögum og lofum í landinu undir stjórn Saddams Husseins og þeir taka því illa að hafa misst áhrif sín. Hryðjuverkamennirnir sem hafa herjað í Írak undanfarin misseri eru einmitt súnní múslimar sem reyna að tryggja sér völd með ofbeldi þar sem þeir eru orðnir vita valdalausir í pólitíkinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×