Menning

Himnaríki og helvíti valin sýning ársins á Grímunni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þuríður Blær Jóhannsdóttir sést hér í hlutverki stráksins í leikverkinu Himnaríki og helvíti.
Þuríður Blær Jóhannsdóttir sést hér í hlutverki stráksins í leikverkinu Himnaríki og helvíti. mynd/grímur bjarnason
Leiksýningin Himnaríki og helvíti, sem byggð er á þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, bókunum Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins, var valin sýning ársins og leikrit ársins 2018 á Grímunni, íslensku sviðlistaverðlaununum, sem fram fóru í Borgarleikhúsinu í kvöld.

Heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2018 hlaut leikkonan Guðrún Ásmundsdóttir.

Himnaríki og helvíti var tilnefnd til alls tólf verðlauna og hlaut sjö þeirra. Auk þess að vera valin sýning ársins og leikrit ársins hlaut leikstjórinn Egill Heiðar Anton Pálsson verðlaun sem leikstjóri ársins, Egill Ingibergsson fékk Grímuna fyrir leikmynd ársins, Helga I. Stefánsdóttir fyrir búninga ársins, Þórður Orri Pétursson fyrir lýsingu ársins og Hjálmar H. Ragnarsson fyrir tónlist ársins.

Eggert Þorleifsson var valinn leikari ársins í aðalhlutverki fyrir leik sinn í Föðurnum og Nína Dögg Filippusdóttir var valin leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir leik sinn í verkinu Fólk, staðir og hlutir.

Leikari ársins í aukahlutverki var Valur Freyr Einarsson fyrir hlutverk sitt í 1984 og Sigrún Edda Björnsdóttir var valin leikkona ársins í aukahlutverki fyrir leik sinn í sýningunni Fólk, staðir og hlutir.

Útvarpsverk ársins var Fákafen eftir Kristínu Eiríksdóttur og Sigurður Andrean Sigurgeirsson hlaut Grímuna fyrir sprota ársins. Í skugga Sveins, sem sýnt var í Gaflaraleikhúsinu, var svo valin barnasýning ársins.

Katrín Gunnarsdóttir hlaut Grímuna sem danshöfundur ársins fyrir verk sitt Crescendo og Baldvin Þór Magnússon hlaut verðlaun fyrir hljóðmynd sína í því verki.

Þyrí Huld Árnadóttir var valin dansari ársins fyrir hlutverk sitt í Hinum lánssömu og Chantelle Carey hlaut síðan Grímuna fyrir dans-og sviðshreyfingar í söngleiknum Slá í gegn. Kristján Þór Jóhannsson var valinn söngvari ársins fyrir hlutverk sitt í óperunni Tosca.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×