Erlent

Navalny hefur verið sleppt úr haldi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Alexei Navalny á mótmælunum í gær.
Alexei Navalny á mótmælunum í gær. Vísir/EPA
Meira en 1.600 mótmælendur voru handteknir víðs vegar um Rússland í gær í mótmælum í aðdraganda þess að fjórða kjörtímabil Vladimír Pútín sem forseta er að hefjast. Þeirra á meðal var leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, hinn 41 árs gamli Alexei Navalny. Lögregla hefur nú sleppt honum úr haldi.

Þúsundir mótmælenda komu saman til þess að mótmæla í 27 borgum og var mestur hitinn í Moskvu, höfuðborg Rússlands. Pútín verður formlega settur í embætti forseta í fjórða sinn á morgun. Navalny var einn af þeim sem skipulögðu mótmælin en hann var handtekinn og dreginn burt af lögreglu aðeins nokkrum mínútum eftir að hann mætti á staðinn.

Formlega séð voru mótmælin ólögleg en yfirvöld á hverjum stað þurfa að gefa leyfi fyrir mótmælum. Voru slík leyfi ekki fyrir hendi á mörgum stöðum. Navalny er harður andstæðingur Pútín sem var meinað að taka þátt í forsetakosningunum sem fóru fram í mars. Lögfræðingur Navalny sagði í samtali við AFP fréttastofuna í dag að hann myndi mæta fyrir dómara á föstudag.


Tengdar fréttir

Víða boðað til mótmæla í Rússlandi

Mótmæli hafa verið boðuð víða í Rússlandi í dag í tilefni þess að Vladimír Pútín verður settur í embætti forseta í fjórða sinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×