Fótbolti

Óttaðist um heilsu Hoddle þegar að allt trylltist við sigurmark Tottenham

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Allt varð vitlaust.
Allt varð vitlaust. mynd/skjáskot
Dramatíkin hélt áfram á ótrúlegu tímabili í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í gærkvöldi þegar að Tottenham vann Ajax, 3-2, í Amsterdam og komst áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Brasilíumaðurinn Lucas Moura var hetja gestanna frá Lundúnum en hann skoraði öll þrjú mörkin fyrir Tottenham og þar af sigurmarkið rétt fyrir leikslok.

Gary Lineker, Rio Ferdinand og Glenn Hoddle stóðu vaktina fyrir BT Sport á leiknum og trylltist allt í myndveri þeirra á vellinum þegar að Moura skoraði en Rio Ferdinand barði í borðið af kæti og æsingi.

Hoddle fagnaði líka vel og innilega enda mikill Tottenham-maður. Hoddle spilaði tæplega 400 leiki á glæstum ferli með Spurs frá 1975-1987 og þjálfaði svo liðið í ensku úrvalsdeildinni frá 2001-2003.

Enski landsliðsþjálfarinn fyrrverandi lenti á spítala á síðasta ári og var hætt kominn en þegar hann virtist vera að riða til falls í látunum athugaði Rio Ferdinand hvort ekki væri í lagi með kallinn.

Það var heldur betur í lagi með Hoddle sem var bara kátur fyrir hönd síns gamla liðs en þessa skemmtilegu senu má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×