Menning

Gamanleikur með broddi

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Þetta er í sjötta sinn sem Rúnar Guðbrandsson leikstýrir leikhópnum, sem hann segir kraftmikinn og öflugan.
Þetta er í sjötta sinn sem Rúnar Guðbrandsson leikstýrir leikhópnum, sem hann segir kraftmikinn og öflugan.
"Þetta er í sjötta sinn sem ég leikstýri þessu leikfélagi, sem er bæði öflugt og kraftmikið í starfsemi sinni,“ segir leikstjórinn Rúnar Guðbrandsson um Leikdeild UMF Skallagríms í Borgarnesi, sem frumsýnir leikritið Nanna systir í félagsheimilinu á Mýrum í kvöld. Leikritið er eftir Einar Kárason og Kjartan Ragnarsson og var fyrst sett upp af Leikfélagi Akureyrar árið 1996. Það er kallað óbeislað raunsæisverk en Rúnar kallar það gamanleik með broddi. "Verkið sló í gegn árið 1996 og var einnig sýnt í Þjóðleikhúsinu sama ár. Þetta er skemmtilegt verk sem ég tel eiga erindi við samfélagið í dag,“ segir Rúnar, en í verkinu koma upp málefni sem eru í umræðunni núna á borð við barnaníðinga, kvótamál, eignahlut í litlum plássum og presta. "Þó að þetta sé gamanverk er þarna alvarlegur undirtónn. Verkið gerist í litlu plássi úti á landi og á sér stað á æfingu leikfélagsins þar í bæ þar sem ákveðið uppgjör milli bæjarbúa á sér stað.“ Leikdeild UMF Skallagríms í Borgarnesi er öflugt leikfélag sem var stofnað árið 1916. Það er myndað af sjálfboðaliðum úr Borgarnesi og sveitinni í kring. Rúnar er sjálfur búsettur á höfuðborgarsvæðinu en lætur sig lítið muna um að keyra á milli á æfingar. "Það er mikill áhugi fyrir leikfélaginu hérna og aðsóknin á sýningarnar er mikil. Ég hef heillast af kraftinum í þessum öfluga hóp en síðustu ár höfum við einbeitt okkur að fjölbreyttu efnisvali í verkum og meðal annars sett upp Skugga-Svein og Gullna hliðið. Í félaginu er öflugur kjarni og svo hefur hlaðist utan á hann,“ segir Rúnar, en í kringum tuttugu manns koma að hverri sýningu. Verkið er frumsýnt í kvöld og vonast Rúnar til að sem flestir leggi leið sína í litla leikhúsið á Mýrunum til að berja þessa uppsetningu augum. Sýningar á verkinu standa til 19. janúar.
Hér má sjá brot af leikdeild UMF Skallagríms við æfingar á verkinu Nanna systir eftir Einar Kárason og Kjartan Ragnarsson sem er frumsýnt í kvöld.
...





Fleiri fréttir

Sjá meira


×