Fótbolti

Solskjær aftur Noregsmeistari með Molde

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Molde varð í dag Noregsmeistari í knattspyrnu annað árið í röð. Knattspyrnustjóri liðsins er Ole Gunnar Solskjær, fyrrum leikmaður Manchester United. Tveir Íslendingar skoruðu í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Molde vann 1-0 sigur á Hönefoss en Strömsgodset tapaði á sama tíma fyrir Sandnes Ulf. Munurinn á liðunum er nú fjögur stig þegar ein umferð er eftir.

Solskjær hefur verið ítrekað orðaður við lið á Englandi og ljóst að hann verður líklega enn eftirsóttari eftir þessa niðurstöðu.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Kristján Örn Sigurðsson spiluðu allan leikinn í liði Hönefoss.

Steinþór Freyr Þorsteinsson var í byrjunarliði Sandnes Ulf en Arnór Ingi Traustason kom inn á sem varamaður hjá liðinu. Óskar Örn Hauksson sat á bekknum.

Stabæk hafði betur gegn Sogndal, 2-1. Veigar Páll Gunnarsson lagði upp fyrra mark Stabæk og Bjarni Ólafur Eiríksson skoraði það síðara. Elfar Freyr Helgason var ónotaður varamaður í leiknum.

Pálmi Rafn Pálmason var einnig á skotskónum en hann skoraði sigurmark Lilleström gegn Vålerenga. Leiknum lauk með 2-1 sigri Lilleström en Pálmi Rafn spilaði allan leikinn.

Birkir Már Sævarsson spilaði allan leikinn fyrir Brann sem tapaði fyrir Tromsö, 2-0.

Haugesund vann Viking, 1-0. Andrés Már Jóhannesson spilaði allan leikinn fyrir Haugesund og Indriði Sigurðsson fyrir Viking.

Viking er í fimmta sæti deildarinnar, Brann í sjötta sæti, Haugesund í sjöunda, Lilleström í níunda, Hönefoss í tólfta, Sandnes Ulf í þrettánda og Stabæk sem fyrr í neðsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×