Innlent

Frumvarp um skipta búsetu barns afgreitt úr ríkisstjórn

Sylvía Hall skrifar
Áslaug Arna. 
Áslaug Arna.  visir/vilhelm

Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um skipta búsetu barns hefur verið afgreitt úr ríkisstjórn. Verði frumvarpið að lögum getur barn verið skráð í þjóðskrá með búsetu hjá báðum foreldrum.

Frumvarpinu er ætlað að stuðla að sátt og jafnari stöðu foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barns og kjósa að ala það upp saman á tveimur heimilum.

Núgildandi barnalög gera ráð fyrir því að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns síns eftir skilnað en ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu. Með breytingunum gætu foreldrar því samið um að barnið skuli eiga fasta búsetu hjá þeim báðum.

Með því fyrirkomulagi geta foreldrar alfarið unnið saman í öllum málum er snerta barnið og ákveða foreldrarnir hvað henti barninu best. Ekki er gerð krafa um að búsetan sé nákvæmlega jöfn hjá hvoru foreldri fyrir sig.

Í færslu á Twitter-síðu sinni segir Áslaug að mikilvægt sé að þarfir og hagsmunir barnsins vegi ætíð þyngra en sjónarmið um jafnrétti foreldra. Foreldrarnir þurfi að jafna sig að aðstæðum barnsins frekar en öfugt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×