Erlent

Romney segir Trump vera loddara

Þórdís Valsdóttir skrifar
Mitt Romney hvetur félaga í Repú­blikanaflokknum til að hafna framboði Donalds Trump.
Mitt Romney hvetur félaga í Repú­blikanaflokknum til að hafna framboði Donalds Trump. Nordicphotos/AFP
Fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, Mitt Romney, hefur hvatt flokksbræður sína til að hafna framboði Donalds Trump.

Eins og er alkunna er Trump í baráttu um að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins og miklar líkur eru á því að hann tryggi sér tilnefningu flokksins, ef fram heldur sem horfir.

Romney sakar Trump um hafa bandarísku þjóðina að fífli og segir hann vera svikahrapp og loddara. Þetta kom fram í ræðu Romney á fundi í Utah-ríki í gær. Í ræðu sinni hvetur Romney samlanda sína til að taka réttar ákvarðanir og styðja ekki við bakið á Trump.

Trump hefur svarað Romney á samfélagsmiðlinum Twitter og sagði meðal annars að Romney ætti ekki að veita öðrum ráðleggingar varðandi forsetaframboð í ljósi þess að hann hafi tapað kosningunum árið 2012 fyrir Barack Obama.

Trump brást einnig við orðum Romneys í ræðu sem hann hélt í Maine. „Ég studdi Mitt Romney,“ sagði Trump í ræðunni. „Nú sjáið þið hversu trygglyndur hann er. Hann var að grátbiðja um stuðning minn.“

Romney telur að ef Trump hljóti tilnefningu flokksins muni það greiða veginn að forsetaembættinu fyrir Hillary Clinton. Þá segir hann einnig að Trump hafi hvorki rétta skapgerð né dómgreind til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.

Mikill uggur er innan Repúblikanaflokksins vegna framgangs Trumps í forvali flokksins og hafa leiðtogar hans keppst við að reyna að hægja á Trump auk þess sem fjölmargir flokksfélagar hafa talað gegn stefnu Trumps að undanförnu.

Trump varð hlutskarpastur repúblikana á Ofurþriðjudeginum svokallaða en þar hafði hann sigur í sjö ríkjum Bandaríkjanna í forvali flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×