Fótbolti

Þrjú stig hjá AC Milan í Róm og þrír sigrar í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andrea Bertolacci fagnar marki sínu.
Andrea Bertolacci fagnar marki sínu. vísir/getty
AC Milan vann sinn þriðja sigur í röð í Seríu A þegar liðið lagði Lazio í Róm í kvöld, 3-1. Eftir erfiða byrjun í deildinni virðast Mílanómenn vera komnir á skrið, en þeir eru ósigraðir í síðustu fjórum leikjum.

Staðan var markalaus í hálfleik, en Andrea Bertolacci kom gestunum á bragðið á 53. mínútu, 1-0.

Franski miðvörðurinn Phillipe Mexés tvöfaldaði forskot sinna manna á 79. mínútu, 2-0, með skallamarki sem var hans fyrsta snerting eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Aukaspyrna frá Milan barst inn á teiginn og ætlaði Federico Marchetti, markvörður Lazio, að ráðast á atburðarásina en missti af boltanum svo Mexes skallaði hann í autt netið.

Kólumbíski markahrókurinn Carlos Bacca innsiglaði svo sigurinn með þriðja marki gestanna á 79. mínútu áður en hollenski framherjinn Ricardo Kishna klóraði í bakkann fyrir Lazio á 85. mínútu, 3-1.

Með sigrinum komst AC Milan upp í sjötta sæti deildarinnar og upp fyrir Lazio sem er sæti neðar. Milan er með 19 stig en Lazio 18 stig.

Fiorentina er efst í deildinni eftir 4-1 sigur á nýliðum Frosinone í dag. Liðið er með 24 stig líkt og Inter sem er í öðru sæti á markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×