Innlent

Líf á öðrum hnöttum þykir sífellt líklegra

Þessi mynd NASA af Enceladusi, einu tungla Satúrnusar, var tekin þegar geimfarið Casini átti leið hjá 11. ágúst 2008. Grænleit svæði eru sögð sýna grófkorna ís og íshnullunga. Fréttablaðið/AP
Þessi mynd NASA af Enceladusi, einu tungla Satúrnusar, var tekin þegar geimfarið Casini átti leið hjá 11. ágúst 2008. Grænleit svæði eru sögð sýna grófkorna ís og íshnullunga. Fréttablaðið/AP
Nýverið hefur verið upplýst að lífvænlegar plánetur eru mun fleiri en áður var talið. Þá hefur verið sýnt fram að að líf finnst í umhverfi sem talið var baneitrað. Vísindamenn telja því öll rök hníga í þá átt að líklegra sé að jörðin sé ekki eina plánetan þar sem líf hafi orðið til.

Nokkrar nýjar uppgötvanir sem nýverið hefur verið greint frá renna stoðum undir þá skoðun að jörðin sé ekki eina plánetan í óravíddum geimsins þar sem líf hafi kviknað — að við séum ekki ein, svo gripið sé til orðaleppa úr sjónvarpsþáttum á borð við X-files og V.

Í nýrri umfjöllun fréttastofunnar AP kemur fram að vísindamenn hafi fyrir nokkrum dögum upplýst að stjörnur séu þrisvar sinnum fleiri en þeir hafi áður talið. Annar hópur vísindamanna hafi uppgötvað að örverur geti lifað á arseniki og þar með aukið skilning fólks á því að líf kunni að þrífast við ólífvænlegustu aðstæður. Og svo var það fyrr á þessu ári að stjörnufræðingar upplýstu í fyrsta sinn um fund plánetu sem gæti fóstrað líf líkt og jörðin.

„Vísbendingarnar hrannast upp," segir Carl Pilcher, forstjóri Geimlífeðlisfræðistofnunar Bandarísku geimvísindastofnunarinnar (NASA Astrobiology Institute) sem rannsakar uppruna, þróun og möguleika lífs í alheiminum. „Ég held að hver sem horfir á þessar niðurstöður hljóti að komast að þeirri niðurstöðu að líf sé víðar að finna í geimnum."

Líkast til er þó rétt að slá þann varnagla að vegna þess hve nýjar þessar rannsóknir og niðurstöður þeirra eru tekst fræðiheimurinn ennþá á um það hversu miklar ályktanir megi af þeim draga.

Þá vara vísindamenn við of miklum væntingum vegna þess að leitin að lífi á öðrum hnöttum eigi sér stað á frumstigi, líklegra sé að uppgötvanir framtíðar snúist um slím, fremur en að E.T. komi í ljós. Síðan verði af áhuga fylgst með þróun slímsins.

Vísindamenn hafa búið sér til jöfnu til að reikna út líkindin á því að þróað líf sé að finna á annarri plánetu. Stórir þættir jöfnunnar byggja hins vegar á ágiskunum sem ekki eru beint á sviði geimvísindanna. Þar á meðal er hverjar líkurnar séu á því að vitsmunalíf hafi náð að þróast og hver sé líftími menningar. En sé málið einfaldað og kröfur um vitsmuni og menningu fjarlægðar úr jöfnunni byggja útreikningarnir á tveimur meginþáttum: Hversu víða er að finna staði úti í geiminum þar sem líf getur þrifist? Og hversu miklum vandkvæðum er það bundið fyrir líf að kvikna?

Uppgötvanir síðustu viku hafa bæði aukið mögulega kviknunarstaði lífs og útvíkkað skilgreiningu vísindamanna á lífi. Líf í geimnum er því sagt líklegra en nokkru sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×