Inter Milan er komið með tíu stiga forskot á toppi ítölsku A-deildarinnar eftir 2-0 sigur á Lazio á San Siro í Mílanó í kvöld. Inter hefur nú tíu stigum meira en nágrannarnir í AC Milan sem eiga leik inni.
Svíinn Zlatan Ibrahimovic var maður leiksins en hann skoraði fyrra markið og lagði síðan upp það síðara fyrir Muntari Sulley. Bæði mörkin komu í seinni hálfleik en Zlatan kom Inter í 1-0 á 58. mínútu.
Það lítur því allt út fyrir að Jose Mourinho sé að takast að gera Inter að ítölskum meisturum á sínu fyrsta ári. Hann gerði það einnig með Porto í Portúgal og með Chelsea á Englandi.