Slökkvilið var kallað út um tíuleytið í morgun vegna reyks í borgarráðsherberginu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Húsið var rýmt og slökkviliðsmenn fóru inn með slökkvitæki, samkvæmt upplýsingum frá Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar.
Hann segir að ákveðnar brunavarnaráætlanir séu í gildi og því hafi húsið verið rýmt þegar brunaboðun fór í gang, líkt og reglur kveða á um. Atvikið hafi þó verið minniháttar en hann hafði ekki upplýsingar um hvort yfir höfuð hafi kviknað eldur, eða hver upptök reyksins voru.
Fámennt er í ráðhúsinu um þessar mundir en margir starfsmenn vinna nú heima sökum faraldurs kórónuveiru, líkt og á mörgum vinnustöðum landsins.
Uppfært klukkan 10:36:
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði virðist um minniháttarútkall að ræða. Viðvörunarkerfi hafi farið í gang og reykjarlykt fundist. Slökkviliðsmenn eru enn að störfum á vettvangi.

