Einn þeirra framherja sem er orðaður við Manchester United þessa dagana er Argentínumaðurinn Carlos Tevez, fyrrverandi leikmaður liðsins.
Tuttosport greinir frá því að forráðamenn United hafi áhuga á að fá Tevez aftur til félagsins, ellefu árum eftir að hann yfirgaf það og gekk í raðir Manchester City.
Marcus Rashford, markahæsti leikmaður United á tímabilinu, er meiddur og óvíst er hversu lengi hann verður frá. United-liðið er því ansi þunnskipað í framlínunni.
Tevez, sem er 35 ára, leikur með Boca Juniors í heimalandinu. Hann gæti verið lánaður til United til loka tímabilsins samkvæmt Tuttosport.
Tevez skoraði 34 mörk fyrir United á árunum 2007-09 og varð tvisvar sinnum Englandsmeistari og einu sinni Evrópumeistari með liðinu.
Sumarið 2009 fór hann til City eins og frægt er orðið. Hann varð Englandsmeistari með liðinu 2012.

