Innlent

Bergvin stígur til hliðar en ætlar að bjóða sig fram aftur

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Ég tel mig ekki á nokkurn hátt hafa beitt eða sýnt óheiðarleika í þessum viðskiptum og þaðan af síður gerst brotlegur í starfi sem formaður Blindrafélagsins“.
"Ég tel mig ekki á nokkurn hátt hafa beitt eða sýnt óheiðarleika í þessum viðskiptum og þaðan af síður gerst brotlegur í starfi sem formaður Blindrafélagsins“. vísir/stefán
Bergvin Oddsson mun stíga til hliðar sem formaður Blindrafélagsins og skipuð verður sérstök sannleiksnefnd til að komast að því hvort eitthvað sé hæft í ásökunum á hendur Bergvini. Hann íhugar nú að fara í skaðabótamál. Halldór Sævar Guðbergsson tekur við sem formaður.

„Ég er sáttur við þessa niðurstöðu og hef fullan hug að bjóða mig aftur fram í formannsembætti Blindrafélagsins á næstkomandi aðalfundi. Ég vil þakka öllum þeim sem hvöttu mig áfram í þessu erfiða og ljóta máli,“ skrifar Bergvin á Facebook-síðu sína.

Stjórn Blindrafélagsins lýsti á dögunum yfir vantrausti á Bergvin sem formann félagsins, og sakaði hann um að hafa misnotað aðstöðu sína með því að „véla ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask Bergvini tengt“. Bergvin vísaði ásökunum stjórnarinnar á bug og sagðist ekki hafa sýnt óheiðarleika í störfum sínum fyrir félagið.

„Nú íhuga ég stöðu mína um skaðabótakröfu á hendur aðalstjórn félagsins og framkvæmdastjóra eftir ærumeiðandi ummæli og mannorðsmorð, sem erfitt verður að fá til baka nema í dómsal. Ég mun taka sæti mitt sem formaður Hverfisráðs Grafarvogs eftir helgi og sinna málefnum hverfisráðsins áfram með félögum mínum þar,“ segir Bergvin.

Haldinn var félagsfundur í húsnæði Blindrafélagsins á miðvikudag þar sem málið var kynnt fyrir um eitt hundrað félagsmönnum. Eftir miklar umræður náðist málamiðlunartillaga sem fól í sér að Bergvin myndi hætta sem formaður og Halldór Sævar Guðbergsson, sem gegnt hefur starfi varaformanns, tæki við sem formaður. Þá verði sannleiksnefnd sett á laggirnar, skipuð þremur óháðum aðilum, til að leggja mat á öll gögn tengd þeim atvikum sem leiddu til þess að meirihluti stjórnar og varastjórnar Blindrarfélagsins lýsti yfir vantrausti á Bergvin.

Ályktunin var samþykkt með 97 atkvæðum gegn einu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×