Erlent

Sprengjum varpað á óvini Assads forseta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rússar hafa varpað sprengjum í gríð og erg á svæði uppreisnarmanna í nágrenni Homs.
Rússar hafa varpað sprengjum í gríð og erg á svæði uppreisnarmanna í nágrenni Homs. nordicphotos/AFP
Frásagnir vitna á jörðu niðri í Sýrlandi segja loftárásir Rússa til þessa einkum hafa beinst að uppreisnarhópum gegn Bashar al Assad forseta. Rússar hafi látið vígasveitir Íslamska ríkisins eiga sig.

Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins heldur því samt fram að árásirnar beinist gegn Íslamska ríkinu. Sprengjum hafi verið varpað á tugi skotmarka og meðal annars hafi tekist að eyðileggja eina stjórnstöð og tvær vopnageymslur.

Árásirnar hófust á miðvikudag og héldu áfram í gær. Rússar hafa notað meira en 50 herþotur, ásamt drónum og gervihnöttum til að miða út skotmörk.

Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði loftárásir Rússa vera olíu á eld átakanna í Sýrlandi.

„Rússar segjast annars vegar ætla að berjast gegn Íslamska ríkinu, hins vegar að styðja stjórn Bashar al Assads,“ sagði Carter, og tók fram að árásunum virðist beint gegn óvinum Assads almennt, ekki eingöngu Íslamska ríkinu.

Vladimír Pútín á leið til fundar í Kreml.nordicphotos/AFP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti fullyrti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York fyrir fáum dögum að hófsamari uppreisnarhópar í Sýrlandi, sem notið hafa stuðnings Vesturlanda, berjist með Íslamska ríkinu. Og Pútín hafði „hófsamari“ innan gæsalappa í ræðu sinni: „Þeir fá vopn og þjálfun, og svo hlaupast þeir undan merkjum og ganga til liðs við hið svonefnda Íslamska ríki.“

Hann sagði það vera ábyrgðarlaust af Bandaríkjunum að notfæra sér öfgahópa til að ná fram pólitískum markmiðum sínum, „í þeirri von að seinna meir getið þið fundið leiðir til þess að losna við þá eða útrýma þeim með einhverjum hætti.“

Hann tók jafnframt fram að hernaður Rússa í Sýrlandi muni alfarið takmarkast við loftárásir. Ekki standi til að fara út í hernað á landi.

Styrjöldin í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í meira en fjögur og hálft ár. Átökin hafa kostað meira en 250 þúsund manns lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×