Sport

Liverpool sigraði 1-0

Steven Gerrard tæklar Cristiano Ronaldo.
Steven Gerrard tæklar Cristiano Ronaldo. NORDICPHOTOS/GETTY IMAGES

Liverpool vann Manchester United í fyrsta skipti í 85 ár í FA bikarkeppninni en Peter Crouch skoraði eina mark leiksins á 19. mínútu. Alan Smith meiddist illa í leiknum og er líklegt að hann verði mjög lengi frá vegna meiðslanna.

Liverpool höfðu tögl og haldir á United í fyrri hálfleiknum og voru mun betri. Peter Crouch skoraði þó eina markið með góðum skalla eftir fyrirgjöf en Edwin van der Sar var mjög nálægt því að verja.

Annað United lið kom til leiks í síðari hálfleik og spilaði mun betur án þess að ná að skapa sér almennileg marktækifæri, Jose Reina markmaður Evrópumeistaranna þurfti aldrei að taka á stóra sínum í leiknum. United sköpuðu þó hættur en tókst ekki að koma boltanum í netið.

Alan Smith verður líklega frá keppni í langan tíma en óttast er að hann sé fótbrotinn. Smith kom inná sem varamaður og stökk fyrir aukaspyrnu John Arne Riise, lenti illa og lá sárkvalinn eftir á vellinum. Hann var þegar settur í spelku og fékk súrefni á leið sinni á sjúkrahús.

Liverpool eru vel að sigrinum komnir og fögnuðu ógurlega í leikslok. United eiga þó von um titil á tímabilinu en þeir mæta Wigan í úrslitaleik Deildabikarsins núna í lok febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×