Erlent

Kameldýr týna tölunni í Sádí-Arabíu

Oddur S. Báruson skrifar

Dularfull veikindi hrjá kameldýr í Sádí-Arabíu og fer tala þeirra hríðlækkandi. Hundruð skepna féllu í síðustu viku. Samkvæmt landbúnaðarráðuneyti landsins drápust 232 skepnur í dalnum Dawasir á aðeins fjórum dögum.

 

Mikil örvænting ríkir meðal kameldýraeigenda sem segja að tala dauðra kameldýra sé mun hærri en stjórnvöld gefa til kynna. Konungur landsins Abdullah hefur lofað þeim sem misst hafa dýr skaðabótum.

Allt er á huldu hvað hrjáir dýrin en landbúnaðarráðuneytið segir að ekki sé um smitsjúkdóm að ræða. Sumir telja að lasleikinn stafi af einhverju í fæði kameldýranna.

Mikill iðnaður er í kringum kameldýr í Sádí-Arabíu. Þau eru mikilvæg samgöngutæki í landinu sem er að mestu leyti eyðimörk. Þá þykir kjötið af þeim prýðismatur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×