Roma tapaði óvænt fyrir Sassuolo í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld. Sassulo vann leikinn 4-2 en Rómverjar voru einkar pirraðir frá upphafi til enda.
Francesco Caputo kom heimamönnum í Sassuolo yfir á 7. mínútut og bætti við öðru marki tæplega tíu mínútum síðar. Filip Djuricic gerði þriðja mark heimamanna og þannig var staðan í hálfleik.
Edin Dzeko minnkaði muninn á 55. mínútut og Jordan Veretout minnkaði muninn í 3-2 á 73. mínútu með marki úr vítaspyrnu en skömmu áður hafði Lorenzo Pellegrini fengið sitt annað gula spjald í liði Roma og þar með rautt.
Aðeins mínútu eftir að Roma minnkaði muninn í 3-2 skoraði Jeremie Boga fjórða mark heimanna og staðan orðin 4-2. Þannig var hún allt til loka og óvænt tap Roma því staðreynd.
Leikmenn Roma virkuðu einkar pirraðir í kvöld en alls fengu þeir sjö gul spjöld á meðan heimamenn fengu aðeins eitt.
Roma er sem fyrr í 4. sæti með 39 stig, sjö stigum á eftir erkifjendum sínum í Lazio sem eru sæti ofar. Sassuolo er svo í 13. sæti deildarinnar.
