Skipuleggjendur Sumarólympíuleikanna 2020, sem fara fram í Tókýó í Japan í sumar, hafa séð sig knúna til þess að hafna opinberlega orðrómum um að útbreiðsla Wuhan-kórónaveirunnar í Asíu, og einkum og sér í lagi í nágrannaríkinu Kína, gæti orðið til þess að leikunum yrði aflýst. Minna en sex mánuðir eru í að leikarnir eigi að fara fram.
Í heildina hafa verið staðfest 12 þúsund tilfelli af veirunni, og þar af 17 í Japan. Alls hafa 259 látist af völdum veirunnar, en enginn utan Kína.
Orðrómar um að leikunum kynni að vera aflýst hlutu byr undir báða vængi eftir að þýski fjölmiðillinn Deutsche Presse-Agentur birti umfjöllun um viðræður Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), hvers niðurstaða hafi verið að útbreiðsla veirunnar „gæti haft alvarleg áhrif á leikana.“
Japanska fréttaveitan Buzztap! fjallaði í kjölfarið um málið, en það varð til þess að meira en 50 þúsund tíst undir myllumerkinu „Ólympíuleikunum í Tókýó aflýst“ birtust á Twitter.
Nú hafa skipuleggjendur leikanna hins vegar gefið út að það sé ekki í umræðunni að aflýsa leikunum að svo stöddu.
„Við munum vinna náið með IOC og öðrum aðilum málsins til þess að gera allar mögulegar varúðarráðstafanir þegar þörf krefur.“
Vísa á bug orðrómum um að Ólympíuleikum verði aflýst vegna veirunnar

Tengdar fréttir

Gagnvirkt kort sýnir útbreiðslu Wuhan-veirunnar
Sérfræðingar hjá John Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum stóðu að gerð kortsins.

Fyrstu staðfestu tilfelli Wuhan-veirunnar í Bretlandi
Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest að tvö tilfelli Wuhan-kórónaveirunnar hafi greinst í Englandi.

Geta nú greint Wuhan-kórónaveiruna á Íslandi
Nú er hægt að greina Wuhan-kórónaveiruna á nokkrum klukkustundum hér á landi. Enn hafa þó engin tilfelli komið upp á Íslandi.

Mikilvægum áfanga í baráttunni gegn Wuhan-veirunni náð
Vísindamenn í Ástralíu hafa orðið fyrstir til að skapa Wuhan-veiruna svokölluðu á rannsóknarstofu, utan Kína.

Bandaríkin loka landamærunum fyrir þeim sem hafa verið í Kína
Erlendir ríkisborgarar sem komið hafa til Kína undanfarnar tvær vikur fá ekki inngöngu inn í Bandaríkin vegna Wuhan-veirunnar.