Erlent

Fella leyfi Palestínumanna úr gildi

Lögregluþjónar að störfum á vettvangi.
Lögregluþjónar að störfum á vettvangi. Vísir/EPA
Ísraelsmenn hafa numið úr gildi leyfi 83 þúsund Palestínumanna, sem búsettir eru á Vesturbakkanum og á Gasa ströndinni, til að ferðast til landsins, eftir að byssumenn myrtu fjóra í höfuðborginni Tel Aviv. Níu særðust í árásinni.

Tveir Palestínumenn frá Vesturbakkanum hófu skothríð í átt að fólki á opnu svæði í borginni í gærkvöldi og segja lögregluyfirvöld að sökudólgarnir hafi verið frá bænum Yatta, sem er nálægt borginni Hebron

Herskáu samtökin Hamas hafa lýst árásinni sem hetjulegri, en hafa þó ekki lýst ábyrgð hennar á hendur sér. Ráðamenn í Palestínu hafa enn ekki tjáð sig um atburðinn en undanfarið hafa árásir Palestínumanna á Ísraela færst í aukana.

Hermenn eru sagðir hafa mælt út heimili árásarmannanna og líklegt sé að þau verði rifin.

Frá því í október hafa 33 Ísraelar látið lífið í árásum. Flestar hafa þær verið gerðar með hnífum og byssum. Á sama tíma hafa rúmlega 200 Palestínumenn látið lífið. Þar af eru flestir sagðir hafa verið árásarmenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×