Erlent

Telur Brexit ógna efnahagi Skotlands

Kjartan Kjartansson skrifar
Sturgeon hefur áhyggjur af áhrifum Brexit á efnahag Skotlands.
Sturgeon hefur áhyggjur af áhrifum Brexit á efnahag Skotlands. Vísir/EPA
Nicola Sturgeon, oddviti skosku heimastjórnarinnar, varar við því að efnahagur Skotlands og Bretlandi hljóti skaða af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hún segist ekki myndu koma í veg fyrir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.

Að óbreyttu gengur Bretland úr Evrópusambandinu í lok mars á næsta ári. Hvorki hefur gengið né rekið í samningaviðræðum Breta og sambandsins um hvernig haga skuli samskiptum þeirra eftir útgönguna.

„Brexit er raunveruleg og aðsteðjandi ógn fyrir skoska og breska hagkerfið,“ sagði Sturgeon þegar hún kynnti fjárlagahalla Skotlands. Reuters-fréttastofan segir að hann sé mun stærri en Bretlands í heild.

Raddir hafa verið uppi um að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit þegar fyrir liggur á hvaða forsendum útgangan verður. Nýlegar skoðanakannanir hafa bent til þess að meirihluti gæti verið fyrir að endurtaka þjóðaratkvæðið. Sturgeon sagðist ekki ætla að koma í veg fyrir slíka atkvæðagreiðslu. Meirihluti Skota hafnaði Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016.

„Umræðan fyrir Skotland á næstu misserum verður um hvernig við getum best búið okkur undir að styðja bestu mögulegu efnahagslegu frammistöðuna,“ segir Sturgeon.


Tengdar fréttir

Bretar andsnúnir áformum May

Einungis sextán prósent Breta telja að Theresa May forsætisráðherra standi sig vel þegar kemur að komandi útgöngu ríkisins úr Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×