Innlent

Hrikalegt öskufall við Kirkjubæjarklaustur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Askan leggur yfir allt, eins og sjá má á bílnum. Myndina sendi Halldór Jóhannsson.
Askan leggur yfir allt, eins og sjá má á bílnum. Myndina sendi Halldór Jóhannsson.

„Það er öskusnjór sem liggur yfir öllu og grátt lag á rúðunum," segir Fanney Jóhannsdóttir, sem er bóndi á Efri Ey II í um 40 kílómetra fjarlægð frá Kirkjubæjarklaustri. Hún segir að á jörðinni við bæinn líti askan út fyrir að vera mjög dökk. Um sé að ræða síðbúinn og dökkan jólasnjór.

Í Vík í Mýrdal virðast menn hafa sloppið betur við öskuna. Enn sem komið er í það minnsta, segir Þórir Kjartansson, forstjóri Víkurprjóns.

„Það hefur ekki vottað fyrir öskufalli hérna. En við höfum séð vel mökkinn þar sem hann liggur austur yfir jökul. Ég hitti bóndann á Litlu-Heiði hérna uppi í Heiðardal uppi í fjöllunum og þar lá öskufallið rétt norðan og austan megin við bæinn hjá honum," segir Þórir. Hann segir að áttin sé svo vestanstæð að í Vík sleppi menn við öskufallið.

„Það er allt í góðum gír hérna en við viljum endilega að þeir fari að opna Suðurlandsvegin þarna við Markarfljótið," segir Þórir. Hann segir að það sé vont að vera innikróaður og bændur séu komnir alveg á síðasta dag með að geyma mjólkina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×