Innlent

Lést eftir neyslu á e-töflu

Kona á þrítugsaldri lést á laugardagsmorgun eftir að hafa tekið inn e-töflu og tveir piltar, á sautjánda ári, voru fluttir á sjúkrahús á sunnudagsmorgun eftir neyslu á e-töflum. Þeir liggja nú á Barnaspítala Hringsins alvarlega veikir.

Konan, sem var tuttugu og fjögurra ára gömul, lést í samkvæmi á laugardagsmorgun. Lögreglan hefur vitneskju um að hún hafi tekið inn e-töflu sem talið er að hún hafi keypt á föstudagskvöld. Ekki liggur fyrir hver seldi henni fíkniefni. Á sunnudagsmorgun voru tveir piltar, fæddir árið 1989, fluttir alvarlega veikir á slysadeild landspítalans í Fossvogi í gærmorgunn. Þeir höfðu báðir tekið inn e-töflur. Þeir liggja nú á Barnaspítala Hringsins en ekki fengust upplýsingar um líðan þeirra þegar eftir því var leitað. Samkvæmt heimildum fréttastofu fóru piltarnir heim til sín úr samkvæmi og voru fluttir á sjúkrahús þaðan. Lögreglan í Reykjavík varar sérstaklega við neyslu á e-töflum vegna þessa. Lögreglan hefur ekki nein fíkniefni, tengt þessu, í sinni vörslu og þarf því að bíða eftir niðurstöðum úr sýnatöku. Krufning fer fram á morgun og munu bráðabirgðaniðurstöður liggja fyrir eftir nokkra daga. Rannsókn lögreglu miðast meðal annars að því að finna út hvaðan konan og piltarnir fengu fíkniefnin.

Neysla á e-töflum hefur vaxið nánast stöðugt síðustu tíu ár samkvæmt tölum SÁÁ, þó örlítið hafi dregið úr neyslunni síðustu tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×