Erlent

Íraskir hermenn ekki tilbúnir

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna viðurkenndi í gær að íraskir hermenn væru ekki tilbúnir til þess að leysa bandarískar hersveitir í Írak af hólmi. Bush lét þessi orð falla á sautjánda blaðamannafundinum sem henn hefur haldið frá því hann varð forseti í ársbyrjun 2001. Bush sagðist telja árangurinn af því að þjálfa íraskar hersveitir vera misjafnlega góðan."Þegar hættu bar að létu þeir sig hverfa af vettvang. Það er óásættanlegt. Íraski herinn er ekki tilbúinn til bardaga." Bush skýrði frá því að hann hygðist leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir 2006 í febrúar sem hefði það að markmiði að helminga fjárlagahallann á fimm árum og auka aðhald í ríkisrekstri. Niðurskurður mun ekki bitna á hernum og heimavörnum í Bandaríkjunum. Tilkynnt var í dag að Bush myndi hitta Putin, Rússlandsforseta á fundi í Slóvakíu í febrúar. Bush sagði að samskiptin við Rússland væru góð en Putin sætir miklu ámæli á Vesturlöndum fyrir íhlutun í málefni Úkraínu og vaxandi einræðistilhneigingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×