Samstarfið var kynnt á Money 20/20, stærstu fjártækni-ráðstefnu Evrópu, í Amsterdam í dag. Í tilkynningunni segir að samstarfið muni meðal annars fela í sér endurbætur á snjallsíma- og netbankalausn bankans.
Haft er eftir Georgi Lúðvíkssyni, forstjóra og eins stofnenda Meninga, að hans fólk sé spennt fyrir að taka þátt í „stafrænu umbreytingarferli UniCredit,“ og að geta innleitt nýjar lausnir fyrir viðskiptavini þessa stóra banka.

Í sömu tilkynningu er jafnframt haft eftir Gianni Franco Papa, framkvæmdastjóra UniCredit, að samstarfið sé mikilvægur liður í vegferð bankans. UniCredit hafi lagt mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum upp á „persónulega upplifun“ og lausnir Meniga falli vel að þeirri áherslu.
Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfsmenn í dag um 100. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 70 fjármálastofnunum og er hann aðgengilegur yfir 50 milljón manns í 23 löndum. Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims, þeirra á meðal Swedbank, Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo.