Körfubolti

KR-ingar halda upp á „Stöndum saman“ með hátíð á fésbókinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson með Íslandsbikarinn sem KR-liðið vann sjötta árið í röð fyrir ári síðan.
Jón Arnór Stefánsson með Íslandsbikarinn sem KR-liðið vann sjötta árið í röð fyrir ári síðan. vísir/daníel

KR-ingar ætla að fá leikmenn og þjálfara meistaraflokka sinna til að gera upp 2019-20 tímabilið á sérstakri uppgjörshátíð „Stöndum saman“ verkefnisins á morgun og gefa stuðningsfólki sínu tækifæri á að fylgjast með því í beinni útsendingu í gegnum fésbókina.

„Stöndum saman“ verkefninu lýkur formlega á morgun föstudaginn 1. maí en þar var körfuknattleiksdeild KR að leita eftir fjárhagsstuðningi frá sínu stuðningsfólki eftir að úrslitakeppnin var flautuð af vegna kórónuveirunnar.

KR-ingar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn sex ár í röð í karlaflokki og ein aðalinnkoma körfuknattleiksdeildarinnar tengdist heimaleikjum liðanna í úrslitakeppninni á vorin. Tekjumissirinn af úrslitakeppninni er því deildinni erfið.

Stöndum Saman snýst um að slá aðsóknarmet í DHL-höllina á leik sem fer þó aldrei fram. Aðsóknarmetið er 2500 manns. Það eru tveir möguleikar í boði. Í fyrsta lagi er að fá ímyndaðan burger, ímyndaðan drykk og miða á leikinn sem kostar 4000 krónur en það er líka hægt að fá bara miða á leikinn á 2500 krónur.

KR-ingar ætla að vera í beinni á Facebook-síðu KR körfu klukkan 16:00 á morgun. Þeir hvetja jafnframt alla KR-inga að taka þátt í söfnuninni áður henni lýkur formlega á morgun.

Ingvar Örn Ákason (Byssan) mun þarna fá til sín góða gesti. Hann ætlar að komast að því hvernig fjáröflunin gekk, mun gera upp tímabilið sem er að baki sem og að spá í það næsta og slá á létta strengi.

Meðal gesta verða:

  • Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir (Obba), fyrirliði mfl. Kvenna
  • Hildur Björg Kjartansdóttir, leikmaður mfl. Kvenna
  • Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari mfl. Kvenna
  • Jón Arnór Stefánsson, fyrirliði mfl. Karla
  • Kristófer Acox, leikmaður mfl. Karla
  • Helgi Már Magnússon, leikmaður mfl. Karla
  • Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari mfl. Karla
  • Böðvar Guðjónsson, formaður kkd KR

Það verður vissulega athyglisvert að sjá hvernig söfnunin hefur gengið hjá KR-ingum og líka hvort „gömlu karlarnir“, Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon, séu kannski búnir að ákveða það að taka eitt tímabil í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×