Innlent

Sjálfstæðismenn fá frest til fimmtudags

Geir H. Haarde forsætisráðherra útilokar ekki að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá svo lengi sem það raski ekki fiskveiðistjórnunarkerfinu. Stjórnarandstaðan vill greiða götu slíks frumvarps en ráðherrann dregur í efa heilindi hennar og segir hana ýmist hæða eða hrósa Framsóknarflokknum.

Nauðsynlegt sé þó að skapa breiða samstöðu um breytingar á stjórnarskrá. Ráðherrann sagði ennfremur að slíkum breytingum á stjórnarskrá væri ekki ætlað að raska núverandi fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar heldur miklu frekar að styrkja þær í sessi.

Samkvæmt heimildum Fréttastofu hefur formaður Framsóknarflokksins krafist þess að málið verði frágengið áður en þing kemur saman á fimmtudag. Það er því lítill tími til stefnu. Forysta flokkanna hittist á ríkisstjórnarfundi í morgun og aftur síðar í dag.

Jón Kristjánsson formaður stjórnarskrárnefndar sagði í þættinum Íslandi í dag í gær að forsætisráðherra hefði verið kunnugt um það fyrir jólin hversu alvarlegum augum framsóknarmenn litu fyrirheit í stjórnarsáttmála um auðlindaákvæðið. Hann hefði hinsvegar ekki talið í verkahring sínum að mynda nýja ríkisstjórn inni í nefndinni. Forsætisráðherra segir á hinn bóginn að hljótt hafi verið um málið í stjórnarskrárnefnd þótt Framsóknarmönnum sé mikið í mun núna að málið fari í gegn. Hann segir óviðeigandi að tala um myndun nýrrar ríkisstjórnar inni í nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×