Sænsku meistararnir í LdB Malmö eru í flottum málum í Meistaradeildinni eftir 3-1 útisigur á austurríska liðinu Neulengbach í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Malmö í kvöld og hefur þar með skorað fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum sínum í Meistaradeildinni. Þóra Björg Helgadóttir stóð í marki Malmö allan leikinn.
Sara Björk skoraði fyrsta mark leiksins á 6. mínútu og hollenski framherjinn Manon Melis bætti síðan við öðru marki á 17. mínútu.
Manon Melis fékk frábært tækifæri til að gulltryggja sigurinn en klikkaði á vítaspyrnu á 56. mínútu og Maria Gstöttner minnkaði muninn sjö mínútum síðar.
Sara Björk kom Malmö hinsvegar í 3-1 á 77. mínútu og gulltryggði sigurinn.
Sara Björk skoraði líka tvö mörk í 5-0 sigri Malmö á ítalska liðinu Tavagnacco í seinni leik liðanna í 32 liða úrslitum.
