Innlent

Karl Steinar: Ég fylgdi öllum reglum í mínu starfi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Karl Steinar segir greinilegt að fleiri ábendingar hafi borist um mál lögreglufulltrúans eftir að Karl hætti sem yfirmaður fíkniefnadeildar.
Karl Steinar segir greinilegt að fleiri ábendingar hafi borist um mál lögreglufulltrúans eftir að Karl hætti sem yfirmaður fíkniefnadeildar. Fréttablaðið/Ernir
Karl Steinar Valsson, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu segist hafa útbúið greinargerð um mál lögreglufulltrúa sem er grunaður um spillingu sem hann sendi áfram á sína yfirmenn í janúar 2012, þegar hann fékk fyrst ábendingar um málið.

Ákvarðanir um formlega rannsókn mála hafi ekki verið hans að taka, heldur þáverandi yfirmanna Karls, Friðriks Smára Björgvinssonar, sem nú gegnir stöðu yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og Jóns H.B. Snorrasonar, sem gegnir stöðu saksóknara og varalögreglustjóra hjá sama embætti.

„Þessar ásakanir á hendur mér eiga ekki við rök að styðjast. Það hefði aldrei verið í mínum verkahring hjá lögreglunni að hefja rannsóknir á mínum næstu undirmönnum. Sú ályktun sem dregin er, að ég hafi með einhverjum hætti vikið frá formlegum verkferlum í þessu máli eða öðrum málum sem upp komu í minni tíð, er einfaldlega röng,“ segir Karl Steinar Valsson, sem gegndi stöðu yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglu frá 2007 til 2014.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, og eins og fram kom í gær, var Karl Steinar endurtekið upplýstur um grunsemdir í garð vel tengds lögreglufulltrúa hjá deildinni.

Maðurinn er enn við störf hjá lögreglu og hefur aldrei verið vikið frá störfum. Hann hefur hins vegar þrisvar verið færður á milli deilda undanfarna mánuði.

„Ég man eftir tilvikum um svona ásakanir í garð lögreglumanna sem upp komu í minni tíð og ég kannast við þetta tilvik. Síðan virðist málið koma upp aftur, eftir að ég hætti störfum. Það mál og það ferli þekki ég ekki neitt og er algjörlega ótengdur því. Mér finnst ég ekki hafa notið sannmælis í fréttaflutningi af málinu.“

Útbjó greinargerð um málið

Vísir hefur fjallað ítarlega um mál lögreglufulltrúans undanfarnar vikur og mánuði. Engin formleg rannsókn á málinu var sett af stað á sínum tíma þegar ásakanir í hans garð komu fyrst upp, í tíð Karls Steinars. Síðan hafi fleiri ásakanir komið upp á hendur lögreglufulltrúanum, eftir að Karl Steinar hætti störfum.

Sjá einnig: Starfsmanni hjá lögreglu vikið úr störfum sínum vegna gruns um að leka upplýsingum

Karl segir rannsóknir á undirmönnum sínum aldrei hafa verið í sínum verkahring. Sjálfur hafi hann útbúið greinargerð um þær ábendingar sem honum bárust í janúar 2012 og komið henni áfram á sína yfirmenn. Nú sé kominn nýr yfirmaður fíkniefnadeildar og hafi verið um nokkurt skeið, eða síðan 2014.

„Sá verkferill sem þarna fór í gang var hefðbundinn. Ákveðin grunnskoðun fer í gang, sem ég sá um að gera sjálfur. Þann gjörning er ekki hægt að kalla rannsókn, heldur er það almenn skoðun þeirra gagna sem eru fyrirliggjandi á þeim tíma. Út frá því útbjó ég greinargerð sem ég svo sendi áfram til minna yfirmanna. Ég fylgdi öllum reglum.“

Jón H. Snorrason.
Árið 2012 voru yfirmenn Karls Steinars, Friðrik Smári Björgvinsson, sem gegnir stöðu yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og Jón H.B. Snorrason, sem gegnir stöðu saksóknara og varalögreglustjóra hjá sama embætti. Þeir báru, þegar þarna var komið sögu, ábyrgð á því að koma ábendingum áfram til ríkissaksóknara sem hefði þá farið fram á formlega rannsókn á málinu, ef tilefni þætti til. Hvorki náðist í Friðrik Smára né Jón H.B. þegar leitað var eftir viðbrögðum þeirra.

„Það er ekki rétt að ég sem yfirmaður sé að rannsaka mína eigin menn. Það gengur ekki upp. Ég hefði aldrei verið sá sem framkvæmdi slíka rannsókn.“

Karl Steinar gegnir nú stöðu tengifulltrúa Íslands hjá Evrópsku lögregluskrifstofunni, Europol, og er staddur í Hollandi, þar sem hann býr og starfar.

Sjá einnig: Vill ekki að lögreglan rannsaki lögreglumenn: „Ótækt að koma mönnum í þessa aðstöðu

Fréttablaðið hefur heimidir fyrir því að samstarf Karl Steinars og lögreglufulltrúans hafi verið mjög náið.Vísir/Ernir
Ekki mitt að rannsaka

Karl Steinar kannast við mál lögreglufulltrúans sem vísað er til, eins og fram kom að ofan.

„Ég hafði enga skoðun á því hvort ætti að vísa þessu máli áfram til ríkissaksóknara á sínum tíma. Í svona tilfelli er ég hreinlega of nálægur starfsmönnunum til þess að fara að taka afstöðu til þess hvort eigi að beita agaviðurlögum innan stofnunarinnar, eða hvort eigi að beita öðrum viðurlögum. Ég get ekki tekið formlega afstöðu til þeirra ásakana sem koma fram. Hvort formleg rannsókn hefði átt að fara fram, ég bara get ekki svarað fyrir það. Enda skiptir mat mitt á því hvort tilefni sé til rannsóknar nánast engu máli. Það er annarra að taka þá ákvörðun, minna yfirmanna á þessum tíma.“

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur sagst ekki geta tjáð sig um málið.

Vildi einbeita sér að vinnunni

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fullyrti Karl Steinar á fundi með undirmönnum sínum að rannsókn á málinu hefði farið fram og að enginn fótur væri fyrir ásökununum á hendur lögreglufulltrúanum á sínum tíma.

„Ég hélt fund vegna málsins. Ég man eftir því. Þar skýrði ég stöðu mála eins og hún blasti við þá, skýrði frá því að greinargerð hefði farið frá mér til yfirstjórnar sem tæki frekari afstöðu. Nákvæmlega hvaða orðalag ég notaði, get ég ekki munað, þó ég sé þokkalega minnugur maður. Ég minnist þess að hafa sagt mínum mönnum að málið væri úr okkar höndum. Við ættum að einbeita okkur að því sem við værum ráðin til þess að gera, sem væri að vinna vinnuna okkar.“

Samskiptin fyrst og fremst fagleg



Samkvæmt heimildum átti Karl Steinar í góðu sambandi við lögreglufulltrúann.

„Ég lít á okkar samskipti sem fyrst og fremst fagleg. Við unnum saman í nokkur ár. Hann er ákaflega reyndur og góður rannsóknarlögreglumaður. Samskipti mín við hann voru bara eins og við aðra starfsmenn, vinaleg og fagleg.“

Hann segir hlutverk lögreglufulltrúans sem um ræðir undir sinni stjórn hafa fyrst og fremst verið samskipti við brotamenn, til upplýsingaöflunar.

„Það er kannski eitthvað sem hefur ekki komið fram. Við höfum heimild samkvæmt lögum til þess að eiga í slíkum samskiptum. Af því tilefni er kannski ekkert óeðlilegt að stundum komi ábendingar um að hann hafi sést á tali við einhverja brotamenn. Það var hans hlutverk, eftir allt saman. Ég þekki ekki til þeirra upplýsinga eða gagna sem liggja fyrir í þessu máli núna, en það er haldið utan um öll samskipti lögreglu í svona málum. Slík gögn eiga öll að vera til.“

Engar ábendingar borist til Aldísar

Sú sem tók við af Karli Steinari heitir Aldís Hilmarsdóttir og hefur gegnt stöðu yfirmanns fíkniefnadeildar síðan 15. apríl 2014.

Hún hefur því gegnt stöðu yfirmanns deildarinnar í tæplega tvö ár.

Aldís segir engar formlegar ábendingar hafa borist til sín um meint misferli lögreglufulltrúans, þess sem þrisvar hefur verið færður til í starfi, síðan hún tók við starfinu. 

„En ég get auðvitað ekki svarað fyrir aðra en mig. Ég tel ekki slúðursögur með,“ segir Aldís.

„Ég veit hinsvegar til þess að lögreglufulltrúinn sjálfur hefur krafist þess að slúðursögur sem um hann ganga verði skoðaðar. Það getur vel verið að einhver slík skoðun hafi farið fram, en það er ekki af mér vitandi.“



Þrálátur orðrómur hefur verið uppi innan lögreglunnar um leka úr röðum fíkniefnadeildar.Vísir/GVA
Lögreglufulltrúinn þrisvar færður til í starfi

Í gær kom fram að hópur lögreglumanna, alls níu sem er meirihluti þeirra sem starfa við rannsóknir á fíkniefnamálum, hefðu skrifað núverandi yfirmönnum lögreglunnar bréf á vormánuðum þar sem þau lýstu yfir vantrausti á lögreglufulltrúann sem um ræðir og starfaði við fíkniefnadeild lögreglunnar.

Bréfið hafi orðið til þess að maðurinn var færður úr starfi.

Lögreglufulltrúinn var fyrst færður í deild tengda fíkniefnarannsóknum en heimildir herma að hann hafi svo verið færður í deild sem annist símhlustanir fyrir öll lögreglulið í landinu. Síðan hefur hann verið færður í þriðja skiptið á nokkurra mánaða tímabili og starfar nú í deild sem tengist ekki rannsóknum á fíkniefnamálum.

Kvartanirnar leiddu til tilfærslunnar

Í fréttum RÚV í gær var því haldið fram, eftir heimildum, að tilfærsla lögreglufulltrúans hefði komið til eftir að fulltrúinn hefði sjálfur óskað eftir því að hans mál væru skoðuð.  

Fréttablaðið og Vísir standa við sinn fréttaflutning af málinu að tilfærsla hans í starfi, þegar hann er færður úr fíkniefnadeild, hafi verið sökum þess að meirihluti deildarinnar taldi sig ekki geta starfað með hann innanborðs. Eftir að hafa ekki fengið nein viðbrögð við umkvörtunum sínum hjá Friðriki Smára Björgvinssyni fór hópurinn framhjá yfirmanni sínum, til Sigríðar Bjarkar. Þá fyrst var á einhvern hátt tekið á málinu og var hann færður til í starfi.

Vel má vera að fulltrúinn hafi fullyrt að hann hefði ekkert að fela og hvatt til þess að hans mál yrðu skoðuð. Það var þó ekki tilefni þess að hann var færður til.


Tengdar fréttir

Þrálátur orðrómur um leka vakti grun

Grunur leikur á að lögreglumaður hafi fengið greitt fyrir upplýsingar til brotahópa. "Það getur hafa átt sér stað þvingun sem enginn veit af,“ segir lögreglustjóri og minnir á að málið sé enn í rannsókn.

Mál lögreglumannsins á sér aðdraganda

Reyndur fíkniefnalögreglumaður grunaður um alvarleg brot í starfi situr í einangrun á Litla Hrauni. Mál hans hefur átt sér nokkurn aðdraganda og fíkniefnadeild hefur verið undir smásjánni um nokkurn tíma.

Fullyrti að rannsókn hefði farið fram

Karl Steinar Valsson tjáði starfsmönnum fíkniefnadeildar að alvarlega ásakanir á hendur lögreglumanni í deildinni hefðu verið rannsakaðar og enginn fótur reynst fyrir þeim. Málið var aldrei formlega rannsakað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×