Innlent

Tvöfalt meira borðað af íslensku skyri á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Þróun í fjölda seldra skyrdósa á Norðurlöndunum utan Íslands. Til samanburðar eru seldar 11,7 milljónir skyrdósa á Íslandi.
Þróun í fjölda seldra skyrdósa á Norðurlöndunum utan Íslands. Til samanburðar eru seldar 11,7 milljónir skyrdósa á Íslandi. Heimild/Mjólkursamslan.
„Þetta er gott vandamál,“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, um gríðarlega aukningu í sölu á íslensku skyri annars staðar á Norðurlöndum.

Að sögn Einars eru nú framleiddar um 36 milljónir dósa af íslensku skyri árlega. Af þeim neyta Íslendingar um 11,7 milljón dósa. Afgangurinn er að langmestu leyti borðaður í hinum norrænu ríkjunum.

„Við höfum 380 tonna tollfrjálsan kvóta inn í Evrópusambandið og erum löngu búnir að sprengja hann. Í Danmörku og í Noregi er því verið að framleiða skyr með leyfum frá okkur og undir eftirliti okkar,“ segir Einar og útskýrir að notaðir séu mjólkursýrugerlar sem MS hafi einkaleyfi á sem og uppskriftir og vörumerki fyrirtækisins sem fái þóknun fyrir hverja dós. „Það vissulega hjálpar upp á sakirnar,“ segir hann um tekjurnar.

Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, býst við að mikill vöxtur í skyrsölu á Norðurlöndum haldi áfram.Fréttablaðið/Vilhelm


Á Norðurlöndunum býst Einar við að á þessu ári verði seld á bilinu 4.300 til 4.500 tonn af íslensku skyri. Í Finnlandi hafi salan tvöfaldast frá í fyrra.

„Þetta hefur vaxið svo hratt að það er farið að hrikta í framleiðslugetunni og við erum farin að skoða möguleika á að auka hana. Við munum leysa það vegna þess að við höldum að það verði áframhaldandi mjög góður vöxtur í skyrsölunni,“ segir Einar sem rekur aukna skyrneyslu ytra meðal annars til áhuga á Íslandi og breytinga á lífsstíl. „Fólk sækir meira í próteinríkar vörur á borð við skyr.“



Íslensk skyr selst vel á Norðurlöndunum í takt við breytta neysluhætti þar sem áhersla er á próteinríkt og fitusnautt fæði.


Önnur mjólkurvörufyrirtæki sækja nú á sömu mið. „Við héldum fyrst að það myndi ganga á okkar markaðshlutdeild en sókn þeirra virðist bara stækka heildarmarkaðinn mjög hratt,“ segir Einar, sem hefur ekki áhyggjur af öðrum skyrtegundum.

„Það eru til eftirlíkingar af skyri á Norðurlöndunum en engin af þeim hefur náð þessari fótfestu vegna þess að það er einfaldlega ekki eins vel þróuð og bragðgóð vara og íslenska skyrið,“ segir forstjóri MS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×