Erlent

Kínverjar vígja risabrú: 42 kílómetrar að lengd

Brúin er engin smásmíði og ætli maður að skokka yfir hana jafnast það á við maraþonhlaup.
Brúin er engin smásmíði og ætli maður að skokka yfir hana jafnast það á við maraþonhlaup. MYND/AP
Kínverjar vígðu í dag lengstu sjávarbrú jarðar en hún er 42 kílómetrar að lengd. Brúin tengir hafnarborgina Qingdao í austurhluta landsins við Huangdao eyju. Samkvæmt ríkisútvarpi Kína kostaði brúin 1,5 milljarða bandaríkjadala en breska blaðið The Telegraph fullyrðir að kostnaðurinn hafi numið 8,8 milljörðum. Brúin, sem er studd af rúmlega fimm þúsund brúarstólpum var rúm fjögur ár í byggingu. Hún er samkvæmt Heimsmetabók Guinnes rúmum fjórum kílómetrum lengri en brú í Louisiana í Bandaríkjunum sem áður var lengsta brú yfir vatn í heiminum.

Brúin er sögð mikið verkfræðilegt afrek og á hún að þola öflugustu jarðskjálfta og fellybylji. Þá er reiknað með að hún eigi að standast árekstur frá risaflutningaskipum sem eru allt að 300 þúsund tonn. Búist er við að um 30 þúsund bílar fari yfir brúna á hverjum degi en tíu þúsund verkamenn unnu á tvískiptum vöktum allan sólarhringinn við að byggja ferlíkið. 450 þúsund tonn af stáli fóru í bygginguna, en það samsvarar 64 Eiffel-turnum, og 80 milljónir ferfeta af steypu voru einnig notaðar.

Brúin er þó langt frá því að vera lengsta brú veraldar, því Danyang-Kunshan brúin, einnig í Kína, er 164 kílómetrar að lengd. Hún er þó öll á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×