Erlent

Netanyahu segir Írana vopnavæða hryðjuverkasamtök

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Benjamin Netanyahu segir Írana fjármagna hryðjuverkastarfsemi í Mið-Austurlöndum.
Benjamin Netanyahu segir Írana fjármagna hryðjuverkastarfsemi í Mið-Austurlöndum. nordicphotos/afp
„Í dag vopnavæða Íranar hryðjuverkasamtök með eldflaugum og á morgun munu þeir vopnavæða þau og sig sjálfa með mun hættulegri vopnum,“ sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, við fjölmiðla í gær. Netanyahu hélt þannig áfram gagnrýni sinni á samninga sem náðust milli Írana og stórvelda heimsins, Bandaríkin, Frakkland, Bretland, Rússland, Kína, Þýskaland og Evrópusambandið, um kjarnorkumál Írans.

Netanyahu sagði enn fremur að ummæli Ali Khamenei, erkiklerks og æðsta valdamanns Írans, á laugardag sýndu að Íranar ætluðu ekki að draga úr árásargirni sinni í garð Ísraelsmanna og Bandaríkjamanna.

Khamenei sagði að stefna íranskra yfirvalda gagnvart Bandaríkjunum muni ekki breytast og að Íranar sjái Bandaríkin enn sem sinn versta óvin.

Samkomulag þjóðanna gengur út á að Íranar muni ekki koma sér upp kjarnorkuvopnabúri eins og lengi hefur verið talin ætlun þeirra þótt leiðtogar ríkisins hafi ávallt neitað því. Á móti munu Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar aflétta viðskiptabanni á Írana.

Netanyahu sagði gróða Írana í kjölfar afléttingar viðskiptabanna renna beint til hryðjuverkasamtaka. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×