Enski boltinn

West Ham svaraði gagnrýnisröddum með flugeldasýningu

Leikmenn West Ham fagna í dag.
Leikmenn West Ham fagna í dag. vísir/afp
West Ham fjarlægðist falldrauginn eftir 3-0 sigur á Southampton á heimavelli í dag en mikil neikvæðni hefur verið í kringum félagið undanfarnar daga og vikur.

Mikið hefur verið deilt um eigendur félagsins og síðustu helgi fyrir landsleikjahlé hlupu meðal annars fjölmargir stuðningsmenn inn á völlinn og gerðu uppreisn.

Leikmenn liðsins buðu upp á flugeldasýningu í dag. Joao Mario kom West Ham yfir á þrettándu mínútu og fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Marko Arnautovic forystu West Ham. Arnautovic bætti svo við einu marki fyrir leikhlé og 3-0 var staðan í hálfleik.

Ekkert var skorað í síðari hálfleik og 3-0 lokatölur en West Ham er komið upp í fjórtánda sæti deildarinnar. Southampton er í átjánda sætinu, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Leicester skaust upp fyrir Everton í áttunda sæti deildarinnar með 1-0 útisigri á Brighton. Glenn Murray gat komið Brighton yfir á 77. mínútu en Kasper Schmeichel varði. Sex mínútum síðar skoraði Vincene Iborra sigurmarkið.

Leicester er eins og áður segir í áttunda sæti deildarinnar en Brighton er í þrettánda sætinu. Níu stigum munar á liðunum.

Jermain Defoe bjargaði stigi í uppbótartíma fyrir Bournemouth gegn Watford á útivelli 2-2. Kiko kom Watford yfir en Joshua King jafnaði af vítapunktinum skömmu fyrir hlé.

Roberto Pereyra kom svo Watford aftur yfir í upphafi síðari hálfleiks og allt benti til þess að Watford myndi fara af Vicarage Road með þrjú stig en Defoe var ekki á sama máli og jafnaði.

Watford er í ellefta sæti deildarinnar með 37 stig, jafn mörg stig og Bournemouth sem er sæti ofar með betri markahlutfall.

Ayoze Perez tryggði Newcastle 1-0 sigur á Huddersfield tíu mínútum fyrir leikslok. Newcastle er komið í tólfta sætið eftir sigurinn en Huddersfield er í sextánda sætinu, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Leikir dagsins:

West Ham - Southampton 3-0

Watford - Bournemouth 2-2

Newcastle - Huddersfield 1-0

Brighton - Leicester 0-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×