Sport

Segir tap í­þrótta­hreyfingarinnar nema tveimur milljörðum

Sindri Sverrisson skrifar
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ. MYND/LÖGREGLAN

Ætla má að fjárhagslegt tap íþróttahreyfingarinnar vegna kórónuveirufaraldursins nemi að minnsta kosti tveimur milljörðum króna, segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Þetta sagði Líney á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag. Íþróttafélög landsins hafa fundið vel fyrir fjárhagslegum afleiðingum faraldursins, til að mynda vegna frestunar og aflýsingu móta af ýmsu tagi.

ÍSÍ hefur fengið 450 milljónir króna frá ríkinu til að úthluta til íþróttafélaga en Líney sagði þá upphæð ekki duga til, þó að hún kæmi að góðum notum. Farið verður í almennar aðgerðir en einnig sértækar þar sem aðilum gefst tækifæri til að sækja um styrki vegna ætlaðs taps af völdum faraldursins. Til dæmis um þetta tók Líney undir að körfuknattleiksdeild KR gæti sótt um styrk vegna þess að úrslitakeppnin fór ekki fram, eða Breiðablik sótt um styrk fari svo að Símamótið í fótbolta verði ekki haldið eins og þó er stefnt að.

Líney ítrekaði þó að góður rökstuðningur þyrfti að fylgja umsóknum og að peningarnir yrðu ekki notaðir til að mæta öðru tapi en vegna Covid-19.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×